Stefnt er að því að ljúka skráningu Bláa lónsins á markað á næsta ári, ef að markaðsaðstæður og ytri aðstæður leyfa.

Þetta segir Grímur Sæmundsen, forstjóri og stærsti eigandi Bláa lónsins, í viðtali í hlaðvarpi Þjóðmálaþar sem fjallað var um stöðu, rekstur og framtíðarhorfur félagsins.

Sem kunnugt er var tilkynnt í byrjun árs 2023 að stefnt væri að skráningu Bláa lónsins á markað. Eins og gefur að skilja hafa þær áætlanir tafist í ljósi þeirra jarðhræringa sem hafa átt sér stað á Reykjanesi og þeirri óvissu sem hefur skapast af þeim. Í þættinum er Grímur meðal annars spurður um það hvort enn sé stefnt að skráningu, sem hann svarar játandi.

„Við unnum mikla heimavinnu. Við fengum Fossa og Landsbankann, okkar viðskiptabanka, til að vera okkar ráðgjafar við undirbúning skráningar. Við stofnuðum nýtt móðurfélag sem var forsenda þess að hafa samstæðuna alla undir einum hætti. Það var farið í áreiðanleikakannanir og við aðlöguðum okkar strúktur að því að við værum skráð félag,“ rifjar Grímur upp.

Lán í óláni

Hann segir að árið 2023 hafi stefnt í það að vera það sem hann kallar afburðarár, en gert var ráð fyrir því að rekstrarhagnaður (EBIDTA) félagsins yrði þá rúmar 50 milljónir evra. Niðurstaðan var sú að hagnaðurinn nam tæplega 40 milljónum evra sökum þess að lokað var í Bláa lóninu nær allan nóvember og desember það ár. Þann 10. nóvember það ár var Grindavík rýmd í fyrsta sinn.

Grímur Sæmundsen
Grímur Sæmundsen
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Eftir á að hyggja var það lán í óláni að við vorum ekki búin að skrá okkur á markað,“ segir Grímur.

„Ég hefði ekki boðið í það að hafa félagið skráð á markað miðað við hamaganginn sem við erum búin að ganga í gegnum í þessum hræringum.“

Grímur bendir á að félagið sé nú þegar að hálfu í eigu almennings í gegnum lífeyrissjóði og að hann telji marga kosti við það að stefna á skráningu.

Lífeyrissjóðir eiga nú þegar helming

„Í ljósi stöðu félagsins og stærðar þess miðað við eðlilegar rekstraraðstæður og þau áform sem við höfum um frekari vöxt, þá hafa menn talið að þetta væri rétt skref að taka. Við erum raunverulega með allt klárt þannig að það er enga stund verið að uppfæra alla þessa vinnu,“ segir Grímur og vísar þar til þeirrar vinnu sem þegar var búið að vinna af hálfu fyrrnefndra ráðgjafa.

Grímur er sem kunnugt er stofnandi Bláa lónsins en í ár eru liðin 33 ár frá stofnun félagsins. Þá er hann sem fyrr segir stærsti eigandi félagsins. Spurður um hans eigin afstöðu til skráningar segir hann að sú vinna hefði ekki farið fram nema hann hefði sjálfur stutt hana sem forstjóri og stærsti eigandi.

„Ég tel að fyrir framtíð félagsins og þar með talið framtíð og hagsmuni hluthafa til framtíðar, þá sé Bláa lónið mjög áhugaverður fjárfestingarkostur. [… Í ljósi þess hvað félagið hefur stóru hlutverki að gegna í íslenskri ferðaþjónustu, sem á gríðarlega bjarta framtíð, að þá tel ég að það sé rétt skref,“ segir hann.

Í þættinum er einnig fjallað um sögu Bláa lónsins, uppbygginguna sem átti sér stað áður en hér varð ferðamannasprengja, ferðaþjónustuna og uppvöxt hennar, áætlanir ríkisstjórnarinnar um aukna skattheimtu á greinina og margt fleira.