Stærsti flugvöllur í Bretlandi, Heathrow í höfuðborginni London, varar við óvissu í eftirspurn eftir flugi á næstu misserum.
Benda forsvarsmenn flugvallarins á að stríðsátökin í Úkraínu, versnandi staða heimshagkerfisins og áhrif þess ef ný Covid-19 bylgja losni úr læðingi skapi talsverða óvissu.
Gera megi ráð fyrir annasamri jólatörn en meiri óvissa ríki um hversu margir leggi land undir fót á öðrum tímum. Þá megi gera ráð fyrir að ferðalög Breta dragist saman vegna mikillar verðbólgu og hækkandi kostnaðar við heimilishald.