Bónus hefur endurnýjað vörumerki sitt og fært í nútímalegri búning en grísinn hefur verið óbreyttur í yfir 30 ár og er nú að fá upplyftingu í fyrsta sinn.
Samkvæmt tilkynningu frá Bónus er breytingin gerð til þess að aðlaga vörumerkið að þeirri stafrænu vegferð sem fram undan er í rekstri verslananna. Merkið mun þannig henta betur til stafrænnar notkunar en einnig verður hægt að nota merkið með nýjum hætti í verslunum Bónus og í almennum auglýsingum.
Þá mun nýja ásýndin auðvelda skilaboðagerð og samskipti, meðal annars á samfélagsmiðlum. Um leið hefur orðmerkið „Bónus" verið uppfært í stíl við nýja grísinn. Í tilkynningunni segir að allt snúist þetta um að auka skilvirkni skilaboða, enda felist í því mikill sparnaður sem sé í takt við stefnu Bónus. Öll einföldun í hönnun auki þannig skilvirkni en viðskiptavinir hafi notið góðs af því í gegnum breytingar í verslunum hjá Bónus síðustu árin.
„Margt af því sem við höfum staðið fyrir í áranna rás höfum við ekki verið nægilega dugleg að segja frá. Í rýni starfsfólks okkar kom fram að þótt við vitum að Bónus hafi hætt að selja plastpoka tveimur árum á undan öðrum á markaðnum þá sé það samt ekki á allra vitorði. Sama á við um margt annað sem við höfum gert sem snýr að sparnaði og samfélagsábyrgð. Við vorum fyrst til að innleiða rafræna verðmiða, eini stórmarkaðurinn sem hefur aldrei selt tóbak, við komum að stofnun pokasjóðs og höfum leitt jákvæðar breytingar í íslenskri verslun. Við höfum alltaf lagt okkur fram um að neytendur fái sem mest fyrir krónuna sína í Bónus með sama verði í öllum okkar verslunum um land allt," er haft eftir Guðmundi Marteinssyni, framkvæmdastjóra Bónus, í tilkynningunni.
Opnunartími lengdur
Fram kemur að tvær verslanir fari fyrst í gegnum breytingarnar en að á næstu mánuðum verði hver verslunin á fætur annarri uppfærð. Þá mun nýtt form koma á öll samskipti og auglýsingar strax.
Þá segir að afgreiðslutími verslana hafi framan af verið liður í að halda niðri kostnaði. „En þegar við hugsuðum að við vildum líka spara tíma viðskiptavina og nýta fermetrana okkar betur þá varð ljóst að við yrðum að lengja afgreiðslutíma verslana. Við ætlum því að hafa opið lengur héðan í frá, um leið og við kynnum nýja grísinn til leiks. Við svörum því kalli viðskiptavina um lengri afgreiðslutíma," er haft eftir Baldri Ólafssyni, markaðsstjóra Bónus, í tilkynningunni.