Borgarráð samþykkti í september síðastliðnum tillögu borgarstjóra um að veita honum heimild til að skrifa undir loftslagsborgarsamning sem felur í sér yfirlýsingu um að Reykjavík stefni að kolefnishlutleysi 2030 og hvetji aðra til að taka þátt í því verkefni. Þetta kemur fram í fundargerð borgarráðs.
Samkvæmt loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar er stefnt að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og ítarleg aðgerðaáætlun hefur verið sett til að ná því markmiði.
Þurfa að herða á loftslagsstefnu borgarinnar
Árið 2022 var Reykjavíkurborg boðin þátttaka í verkefninu 112 loftslagsborgir Evrópu, Evrópusamstarf um kolefnishlutlausar og snjallar borgir 2030.
„Verkefnið er hluti þeirra aðgerða sem miða að því að Evrópa geti orðið kolefnishlutlaus fyrir 2050. Stýrihópur um Evrópusamstarf og kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030 þar sem oddvitar allra flokka í borgarstjórn eiga sæti, hefur unnið að undirbúningi samningsins ásamt starfshópi sérfræðinga þvert á svið borgarinnar,“ segir í greinargerð tillögu borgarstjóra.
Fram kemur að þátttaka í þessu verkefni feli í sér að herða þurfi á loftslagsstefnu borgarinnar og flýta kolefnishlutleysi hennar um áratug eða til ársins 2030.
„Hér er því lagt til að borgarráð samþykki að borgarstjóra verði heimilað að skrifa undir loftslagsborgarsamning sem felur í sér yfirlýsingu um að Reykjavíkurborg muni vinna að því að verða kolefnishlutlaus og snjöll árið 2030.“
Í greinargerðinni segir að til þess að það markmið geti náðst þurfi að leita til samstarfsaðila og að sú vinna sé þegar hafin. Þeim aðilum sem vilja taka þátt í verkefninu bjóðist þá að leggja til aðgerðir sem miða að kolefnishlutleysi og taka þannig þátt í þessum fyrsta loftslagsborgarsamningi. Þeir aðilar sem skrifa undir loftslagsborgarsamninginn munu lýsa yfir:
Við undirrituð skuldbindum okkur til að taka þátt í að:
- móta aðgerðir sem draga mælanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við loftslagsmarkmið Reykjavíkurborgar um að verða kolefnishlutlaus 2030
- taka þátt í árlegum samráðsfundum fram til ársins 2030 hið minnsta
Með tillögunni fylgir tæplega hundrað blaðsíðna skal með aðgerðaáætlun, skuldbindingar borgarinnar og fjárfestingaráætlun fyrir kolefnishlutleysi borgarinnar.