Leikarinn Brad Pitt skoðar nú ýmsa val­kosti varðandi breytingar á eignar­haldi kvik­mynda­fram­leiðslu­fyrir­tækisins síns Plan B En­terta­in­ment, þar á meðal að selja fyrir­tækið að hluta eða í heild sinni, sam­kvæmt heimildum Wall Street Journal. Fyrir­tækið hefur ráðið fjár­festingar­bankann Moelis & Co. sem ráð­gjafa.

Plan B Entertainment hefur meðal annars komið að framleiðslu þriggja óskarsverðlaunarmynda; The Departed, 12 Years a Slave og Moonlight. Fyrirtækið kom einnig að framleiðslu nýju Netflix kvikmyndarinnar Blonde, sem fjallar um leikkonuna Marilyn Monroe.

Plan B var stofnað árið 2005 af Pitt og þáverandi eiginkonu hans Jennifer Aniston ásamt Brad Grey. Eftir skilnað Pitt og Aniston og ráðningu Gray sem forstjóra Paramount Pictures árið 2005 varð Brad Pitt aðaleigandi fyrirtækisins.

Í umfjöllun WSJ segir að Plan B sé í hópi fyrirtækja sem hyggjast nýta sér mikla samkeppni streymisveita um nýtt myndefni.

Candle Media, sem er með fjárfestingarsjóðinn Blackstone á bak við sig, keypti Hello Sunshine, framleiðslufyrirtæki Reese Witherspoon í fyrra. Viðskiptin voru metin a tæplega 900 milljónir dala eða sem nemur 130 milljörðum króna á gengi dagsins.

Candle Media, sem er stýrt af Kevin Mayer og Thomas Staggs, fyrrum stjórnendum hjá Disney, keypti einnig meira en 10% hlut í framleiðslufyrirtæki hjónanna Will Smith og Jada Pinkett Smith á 60 milljónir dala, eða um 8,7 milljarða króna í byrjun þessa árs.