Útgerðarfélagið Brim hagnaðist um 11,3 milljarða króna á síðasta ári, samanborið við 4,5 milljarða hagnað árið 2020 ef miðað er við meðalgengi evrunnar á móti krónunni á hvoru ári. Stjórn félagsins leggur til að greiddar verða út 4.034 milljónir króna í arð vegna síðasta rekstrarárs. Þetta kemur fram í ársuppgjöri sem Brim birti eftir lokun Kauphallarinnar.
Rekstrarhagnaður Brims fyrir afskriftir (EBITDA) jókst úr 8,9 milljörðum í 14 milljarða á milli ára. Tekjur félagsins, í krónum talið, jukust um 28,9% á milli ára og námu 58,3 milljörðum króna.
Í tilkynningu Brims segir að loðnuveiðar hafi sett mark sitt á afkomu ársins en loðnuveiðar fóru fram í febrúar-mars og desember eftir að stærstu úthlutun á loðnukvóta síðustu tveggja áratuga fór fram í október síðastliðnum. Þá hafi tekjur af botnfiski hækkað frá fyrra ári, einkum vegna þess að botnfiskvinnslan í Norðurgarði var í rekstri allt árið, en vinnslan var lokið í þrjá mánuði árið 2020 vegna endurnýjunar.
Sé einungis horft til fjórða ársfjórðungar nam hagnaður félagsins 32,1 milljónum evra, eða um 4,6 milljarða króna miðað við núverandi gengi krónunnar, sem vegur um 42,7% af heildarhagnaði Brims á árinu. Rekstrartekjur á fjórðungnum jukust um 22% frá sama tímabili í fyrra og námu 96,3 milljónum evra, eða um 13,7 milljörðum króna.
Þróun hagnaðar Brims í evrum á árunum 2014-2021. Mynd tekin úr fjárfestakynningu félagsins.
Gefa starfsfólki hlutabréf í samræmi við starfsaldur
Stjórn Brims hefur ákveðið að afhenda fastráðnu starfsfólki félagsins og dótturfélaga hluti í Brimi í samræmi við starfsaldur hjá félaginu. Áætlað er að þetta séu um 6 milljónir hlutir og heildarkostnaður Brims vegna þessa er áætlaður um 650 milljónir króna. Markaðsvirði 6 milljóna hluta í Brimi nemur í dag um 444 milljónum króna. Miðað við að meðalfjölda ársverka hafi verið 762 hjá Brimi í fyrra má ætla að hver starfsmaður fái að meðaltali um 7.874 hluti í félaginu að markaðsvirði 582 þúsund króna.
„Styrkur félagsins felst í öflugu starfsfólki til sjós og lands. Stjórnin þakkar fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og þá sérstaklega síðustu tvö ár í heimsfaraldri Covid og þeim einstöku áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir. Á slíkum tímum verður seint undirstrikað mikilvægi starfsfólks í velferð og árangri félagsins til framtíðar,“ segir í tilkynningunni.
Meðalfjöldi ársverka hjá Brim fækkaði úr 769 í 762 á milli ára. Árið 2021 námu laun og launatengd gjöld samtals 11,8 milljörðum króna á meðalgengi ársins samanborið við 10,3 milljarða króna árið áður.
Seldu aflaheimildir fyrir 3 milljarða
Í fjárfestakynningu félagsins segir að í kjölfar óvenjumikillar úthlutunar á veiðiheimildum á loðnu, ásamt því að þorskígildisstuðull loðnu fór úr 0,00 í 0,36, fóru heildar þorskígildi Brims upp fyrir 12% hámark. Félagið varð því að selja frá sér aflaheimildir „sem það hafði alla burði og getu til að veiða og vinna“.
Alls seldi Brim 5,84% aflahlutdeild í loðnu og nam söluverðið 22 milljónum evra, eða um 3,1 milljarð króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Söluhagnaður nam 17,8 milljónum evra, eða 2,5 milljörðum króna, sem var færður meðal rekstrartekna á fjórða ársfjórðungi.
Eignir Brims í árslok 2021 voru bókfærðar á 796 milljónir evra, eða 117,5 milljarða króna miðað við lokagengi krónunnar á árinu. Árið 2020 voru eignir félagsins metnar á 765 milljónir evra, eða um 119,4 milljarða króna, en taka skal fram að krónan styrktist á milli ára. Umreiknað í krónur hækkaði eigið fé félagsins úr 52,7 milljörðum króna í 58,8 milljarða á milli ára. Eiginfjárhlutfallið hækkaði sömuleiðis úr 44% í 50%.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:
„Styrkur Brims kom vel í ljós á síðasta ári. Starfsfólk Brims sýndi þrautseigju og elju annað árið í röð í erfiðu árferði vegna Covid heimsfaraldrar. Það veiddist vel, framleiðsla gekk vel sem og sala á afurðum á erlendum mörkuðum. Miklar fjárfestingar félagsins undanfarinna ára í hátæknivinnslubúnaði, veiðiheimildum og nýjum skipum eru einnig að skila sér með sýnilegum hætti í bættum rekstri og afkomu Brims. Fjárfesting í sölufyrirtækjum á síðustu misserum hefur haft jákvæð áhrif á afurðaverð þeirra vara sem seldar eru á erlenda markaði sem skilar sér í hærri verðum og aukinni arðsemi í rekstri félagsins alls.
Þegar við skoðum síðasta ársfjórðung ársins 2021 sérstaklega sjáum við að EBITDA hagnaður tvöfaldast frá sama tímabili árið áður, úr 13,7 milljónum evra í 27,7 milljónir. Ástæðan er aukin veiði á síld og loðnu og hærra verð á sjávarafurðum. Annað sem vekur athygli á fjórðungnum er sala félagsins á 5,84% aflahlutdeild í loðnu. Þrátt fyrir bókfærðan söluhagnað upp á tæpar 18 milljónir evra var það stjórnendum þvert um geð að selja aflahlutdeildina. Í kjölfar óvenjumikillar úthlutunar á veiðiheimildum á loðnu og þess að þorskígildisstuðull loðnu fór úr 0,00 í 0,36 fóru heildar þorskígildi félagsins upp fyrir 12% þorskígildishámark og varð félagið því að selja frá sér aflaheimildir sem það hafði alla burði og getu til að veiða og vinna.
Þegar horft er um öxl sést að á árinu 2021 hélt Brim áfram að vaxa og styrkjast. Heildareignir félagsins jukust og nema núna nærri 796 milljónum evra. Fjárhagsstaðan er góð þar sem eigið fé er 398 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall er 50% í samanburði við 44% ári áður. Það má því segja að Brim sé hraust og burðugt félag. Brim keppir um hylli viðskiptavina á fjarlægum mörkuðum við fjölþjóðakeppinauta sem eru margfalt stærri og þess vegna þarf félagið að vera fjárhagslega sterkt, lipurt og standa á eigin fótum til að geta brugðist rétt við nýjum og breyttum aðstæðum á hverjum tíma. Að mínu mati er Brim þannig fyrirtæki í dag.“