Öll félög á aðalmarkaði íslensku Kauphallarinnar hækkuðu í viðskiptum dagsins, þar af hækkuðu sautján af tuttugu félögum um meira en 2%. Gengi félaga Kauphallarinnar hafa því rétt úr kútnum, að minnsta kosti að hluta til, eftir verulegar lækkanir eftir að Rússland gerði innrás í Úkraínu í gær. Neðst í fréttinni má finna lista yfir lokagengi Kauphallarfélaga í dag og í gær en vegna tæknilegra örðugleika í upplýsingaveitukerfi Nasdaq birtist rangt dagslokaverð fyrir íslensk hlutabréf í gær.
Útgerðarfélagið Brim leiddi hækkanir en gengi félagsins hækkaði um heil 11,5% í dag og stendur nú í 82,5 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Brims hefur aldrei verið hærra í sögu félagsins og hefur alls hækkað um 54% á einu ári. Brim birti uppgjör eftir lokun markaða í gærkvöldi en félagið hagnaðist um 11,3 milljarða króna á liðnu ári og hyggst greiða út 4 milljarða í arð. Gengi Síldarvinnslunnar hækkaði einnig um 5,5% í viðskiptum dagsins og er nú komið í 96 krónur á ný.
Sjá einnig: Brim gefur starfsfólki hlutabréf
Icelandair hækkaði næst mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 7%. Gengi flugfélagsins stendur nú í 2,13 krónum á hlut, samanborið við 1,99 krónur við lokun markaða í gær.
Iceland Seafood International (ISI) fylgdi þar á eftir í 5,6% hækkun en hlutabréfaverð félagsins stendur nú í 15 krónum á hlut. Hlutabréf ISI voru meðal þeirra sem féllu hvað mest í byrjun gærdagsins. Jakob Valgeir ehf., félag á vegum Jakob Valgeirs Flosasonar, nýtti sér lækkanirnir og fjárfesti í félaginu fyrir 138 milljónir króna á genginu 13,8 í gær. Þá keypti LSR 50 milljónir hluti í ISI í gær og fer nú með 5,1% hlut í félaginu. Sé miðað við lokagengi ISI í gær má ætla að lífeyrissjóðurinn hafi greitt 710 milljónir króna fyrir hlutinn.
Gengi Marels fór niður í 714 krónur á hlut í gær og hafði ekki verið lægra síðan í byrjun desember 2020. Hlutabréf félagsins hækkuðu þó um 4,3% og eru aftur komin upp í 745 krónur.