Samkeppnisyfirvöld gruna Byko og Húsasmiðjuna meðal annars um að hafa boðið samkeppnisaðila að taka þátt í verðsamráði, að borga með tilboðum til að þau séu lægri en samkeppnisaðila og að hafa lækkað verð um tugi prósenta á þungavörum þegar nýr aðili hóf sölu á slíkum vörum. Þetta kemur fram í kæru Múrbúðarinnar til Samkeppniseftirlitsins vegna háttsemi fyrirtækjanna tveggja, sem lögð var fram í nóvember í fyrra. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að þau atriði sem tilgreind eru í kærunni séu meðal þess sem hafi leitt til húsleita og handtaka hjá Byko, Húsasmiðjunni og Úlfinum í mars síðastliðnum. Rökstuddur grunur er um að þau séu í andstöðu við samkeppnislög.
Opnuðu grófvörudeild
Viðskiptablaðið hefur undir höndum kæru sem Múrbúðin sendi Samkeppniseftirlitinu 19. nóvember í fyrra. Fyrirtækið hafði mánuði áður opnað grófvörudeild sem seldi helstu þungavörur byggingavörumarkaðarins. Byko og Húsasmiðjan höfðu verið nánast einráð á þeim markaði fram að innkomu Múrbúðarinnar. Í kærunni heldur lögmaður Múrbúðarinnar því fram að fyrirtækin tvö hafi misnotað sameiginleg markaðsyfirráð og brotið gegn ákvæðum samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið (ESS). Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þau atriði sem tiltekin eru í kærunni séu meðal þeirra sem leiddu til húsleita og handtaka í mars síðastliðnum.
Buðu verðsamráð
Forsvarsmenn Múrbúðarinnar segja að fyrirtækið hefði fljótlega fundið fyrir titringi hjá Byko og Húsasmiðjunni þegar áform þess um að stofna grófvörudeild spurðist út. Í kærunni segir að þessi titringur hafi náð „hámarki þegar haft var samband við Múrbúðina af fulltrúum stóru fyrirtækjanna á markaðinum, Húsasmiðjunnar og Byko, og Múrbúðinni boðið að taka þátt í upplýsingaskiptum sem ekki var hægt að skilja á annan veg en boð um þátttöku í verðsamráði“. Forsvarsmenn Múrbúðarinnar tilkynntu Samkeppniseftirlitinu samstundis um þessi tilboð.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.