Carbfix hefur boðað til fundar til að kynna áform um uppbyggingu og rekstur athafnasvæðis til móttöku, niðurdælingar og bindingar CO₂ í Þorlákshöfn. Þetta kemur fram á Facebook-síðu fyrirtækisins og fer fundurinn fram á mánudaginn næsta.

Þar segir að tilgangur fundarins sé að hefja samtal við íbúa Ölfus um uppbyggingu slíkra stöðva en Carbfix hefur verið í Ölfusi frá 2012 með starfsemi á Hellisheiði og í Þrengslum þar sem koldíoxíð (CO₂) og brennisteinsvetni er bundið frá jarðvarmavirkjun Orku náttúrunnar og CO₂ frá Climeworks.

„Á fundinum verður sagt frá hvers vegna er verið að byggja slíkar stöðvar, hvernig ferlið gengur fyrir sig, hvernig slíkar stöðvar eru byggðar upp, hvernig þær geta litið út og hvaða samfélagslegu og efnahagslegu áhrif þær hafa. Þá munu Veitur lýsa hvernig þau styðja við grænt atvinnulíf í samræmi við stefnu sveitarfélaga með sömu grænu áherslur,“ segir í tilkynningu.

Sveitarstjóri Ölfus, Elliði Vignisson, mun opna fundinn og fjallar um samstarf Ölfus og Carbfix gegnum árin. Í lokin verður veittur nægur tími fyrir spurningar úr sal og af netinu.