Viðskiptaráð Íslands (VÍ) hefur gert úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála ríkisstjórnarinnar á fyrsta þingvetri hennar. Samtals höfðu 17 mál markverð efnahagsleg áhrif og eru heildaráhrif nokkuð jákvæð að mati ráðsins.

Fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, kemur best út úr úttektinni en Viðskiptaráð telur hann hafa skilað jákvæðustum efnahagslegum áhrifum. Hann fær 6+ í stigagjöf VÍ en þar munar mestu um sölu ríkisins á eftirstandandi 45% hlut sínum í Íslandsbanka í maí en fyrir það fær hann þrjú stig.

Auk þess fékk Daði Már tvö stig fyrir að ljúka uppgjöri ÍL-sjóðs og sitthvort stigið fyrir frumvarp um greiðslur yfir landamæri í evrum annars vegar og frumvarp um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og verðbréfasjóða sem náðu bæði fram að ganga. Hann er aftur á móti dreginn niður um eitt stig fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 þar sem ráðið taldi skort á nægjanlegu aðhaldi og útfærðum hagræðingartillögum.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra eru næst efstar af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, báðar með tvö stig.

Kristrún fékk tvö stig fyrir fækkun ráðuneyta úr tólf í ellefu og Þorgerður Katrín fékk stig fyrir fullgildingu fríverslunarsamnings milla EFTA-ríkjanna og Taílands annars vegar og samnings um viðskipti og efnahagslega samvinnu EFTA-ríkjanna og Indlands hins vegar.

Mynd tekin af heimasíðu Viðskiptaráðs.

Þingmál tveggja ráðherra eru í heildina metin neikvæð að mati Viðskiptaráðs. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra er neðst í úttektinni en hún fær þrjú mínusstig fyrir frumvarp sitt um hækkun veiðigjalda. Ekkert annað mál fær jafnlága einkunn í úttektinni.

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra er einnig með neikvæða einkunn hjá VÍ en það skýrist einkum af frumvarpi hans um stofnun ríkisrekinnar þjóðaróperu sem er metið næst verst með tilliti til efnahagslegra áhrifa.

„Alls voru 5 mál metin með markverð neikvæð áhrif. Þar vógu þyngst lög um veiðigjald, sem fela í sér veigamikla skattahækkun á fyrirtæki í sjávarútvegi. Önnur mál með neikvæð efnahagsleg áhrif voru t.d. lög um nýja ríkisrekna óperu, sem fela í sér varanlega útgjaldaaukningu sem mun vaxa á næstu árum, í andstöðu við hagræðingaráform ríkisstjórnarinnar,“ segir í frétt á vef VÍ.

Nokkur afdrifarík mál náðu ekki fram að ganga

Á nýafstöðnu þingi lagði ríkisstjórnin fram 96 lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. Af þeim náðu 43 mál fram að ganga á Alþingi. Viðskiptaráð fór einnig þau stjórnarmál sem mælt var fyrir á vorþingi en náðu ekki fram að ganga sem voru samtals 53.

„Á lista yfir jákvæð mál sem ekki hlutu afgreiðslu eru t.a.m. mál sem snúa að bættri raforkuöflun, einföldun leyfisferla við öflun raforku og viðskiptakerfi raforku sem og einföldun á regluverki varðandi viðurkenningu menntunar,“ segir á vef VÍ.

„Á lista yfir neikvæð mál sem ekki hlutu afgreiðslu er m.a. að finna frumvarp um bindingu örorkulífeyris við launavísitölu, íþyngjandi kvaðir um tengda aðila í sjávarútvegi umfram aðrar atvinnugreinar og almenna skráningarskyldu húsaleigusamninga og takmörkun á breytingu leiguverðs.“