Öryggismiðstöðin fékk á dögunum styrk frá heilbrigðisráðuneytinu til að innleiða nýja tækni í fjarheilbrigðisþjónustu á íslenskan markað. Fyrirtækið mun á næstunni hefja fyrstu verkefnin í fjarheilbrigðisþjónustu með margreyndu kerfi sem getur að sögn forstjóra félagsins sparað heilbrigðiskerfinu gífurlegan kostnað og aukið starfsöryggi heilbrigðisstarfsfólks, auk þess að bæta þjónustu við sjúklinga. Fyrstu verkefnin eru unnin í samstarfi við Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar og Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Lausnin er frá norska heilsutæknifyrirtækinu Dignio og hefur kerfið á undanförnum mánuðum verið aðlagað að íslensku heilbrigðiskerfi. Dignio er leiðandi í fjarheilbrigðislausnum í Skandinavíu. Í Noregi hefur ávinningur af innleiðingu fjarheilbrigðislausna til fólks með langvinna sjúkdóma verið rannsakaður og sýnir óháð rannsókn á vegum norska heilbrigðisráðuneytisins fram á mikinn ávinning fyrir þjónustuþega sem og þjónustuveitendur.

Rannsóknin sýnir fram á að lausnin hafi fækkað innlögnum á sjúkrahús um 32% hjá rannsóknarhópnum og læknisheimsóknum um 42%, auk þess sem innlitum á vegum heimahjúkrunar fækkaði um 34%. Þá lækkaði kostnaður á hvern þjónustuþega á mánuði um 47%. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu ekki aðeins í ljós að lausnin leiddi til aukinnar skilvirkni í heilbrigðiskerfinu, heldur sýndu þær einnig fram á stóraukinn ávinning sjúklinga. Innlagnardögum þeirra á sjúkrahúsi fækkaði um 39%, en á sama tíma töldu 73% sig hafa meiri vitneskju um eigin heilsu. 90% sjúklinga töldu sig hafa betri stjórn á eigin heilsu með lausninni og 93% þeirra töldu sig fá betri eftirfylgd í fjarheilbrigðisþjónustunni heldur en áður.

Öllum til hagsbóta

„Samhliða höfum við hafið samstarf við annað norskt tæknifyrirtæki sem heitir Sensio og kemur frá öryggishlið verkefnisins og er leiðandi í Noregi í öryggishnöppum og lausnum fyrir hjúkrunarheimili og heimaþjónustur sveitarfélaga. Með Sensio er markmið okkar að bæta þjónustu við notendur, fjölga verkefnum á stjórnstöð, ná vopnum okkar í lausnum til hjúkrunarheimila og bjóða sjúkrahúsum upp á reyndar og árangursríkar lausnir í vöktun og stafrænum yfirsetum. Þá viljum við jafnframt tengja lausnaog þjónustuframboð okkar betur við þarfir heimaþjónustu sveitarfélaga,“ segir Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar.

Ragnar segir yfir 200 norsk sveitarfélög nota fjarheilbrigðistækni Dignio til að þjónusta samtals rúmlega 40 þúsund sjúklinga. „Reynsla Norðmanna og opinberar rannsóknir sýna gífurlegan ávinning af innleiðingu. Viðskiptavinir geta verið heilbrigðisstofnanir, heilsugæslu, sveitarfélög, sjúkrahús og sá möguleiki er fyrir hendi að við bjóðum þjónustu sjálf og fjölgum þannig sólarhringsverkefnum. Saman mynda lausnir þessara fyrirtækja mjög heildstæða þjónustu, sem tengja saman öryggi og heilsu. Sjúklingurinn upplifir betri þjónustu, auk þess sem lausnin sparar kostnað nánast frá fyrstu mínútu.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.