Bandaríska efnafyrirtækið 3M samþykkti í gær að greiða 10,3 milljarða dala sekt vegna ásakana um að fyrirtækið hafi með efnablöndu sinni mengað drykkjarvatn víða um Bandaríkin. Fyrirtækið mun greiða sektina næstu 13 árin til allra þeirra borga, bæi og sýsla sem urðu fyrir áhrifum efnablöndunnar.

Efnið sem um ræðir er kallað „eilífa efnið“ af fyrirtækinu (e. Forever Chemicals) og var meðal annars notuð í slökkvifroðu hjá bandarískum slökkviliðum. Það samanstendur af perflúoralkýl, eða PFAS, sem er flokkur tilbúinna efnasambanda sem er mikið notað í iðnaði.

3M á yfir höfði sér rúmlega 4.000 ákærur frá mismunandi fylkjum og bæjarfélögum en fyrirtækið hefur neitað öllum ásökunum. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir aftur á móti að 3M muni hætta allri framleiðslu á PFAS fyrir árslok 2025.

PFAS hefur verið bendlað við lifraskemmd, þroskahömlun, skertri ónæmisvirkni og krabbameini. Það er einkum talið vera skaðlegt sökum þess hve lengi það endist í mannslíkamanum og umhverfinu. PFAS hefur einnig greinst í hundruðum villtra dýrategunda um allan heim.

Mike Mortell, borgarstjóri Stuart í Flórída-fylki, segist sáttur með sektina en borgin neyddist til að loka og skipta út vatnsveitu sinni árið 2016 vegna mengunar. Borgin áætlaði þá að bæði tjón og hreinsunarkostnaður væri í kringum 100 til 120 milljónir dalir.

„Þó svo að uppgjörið sé stórt skref í að hjálpa borgum og bæjum við að takast á við þessa vatnsmengun þá verða það skattgreiðendur sem munu sitja uppi með stóran hluta reikningsins,“ segir Mike Mortell.