Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 1,1% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 2.435,83 stigum. Gengi 15 félaga á aðalmarkaði hækkaði, en eitt félag lækkaði.
Gengi bréfa Origo lækkaði um tæp 2,5% í 70 milljóna króna viðskiptum.
Þá hækkaði gengi bréfa í Eimskip um 8,65% í 670 milljóna veltu.
Eimskip sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun eftir lokun markaða í gær. Áætlar félagið að EBITDA á þriðja ársfjórðungi verði á bilinu 48,6-50,1 milljónir evra, eða um 6,8-7 milljarðar króna. Til samanburðar var EBITDA félagsins á sama ársfjórðungi í fyrra um 36,8 milljónir evra, eða um 5,2 milljarðar króna á gengi dagsins.
Heildarvelta á markaði nam 2,9 milljörðum króna. Fyrir utan Eimskip var mesta veltan með bréf í Arion banka, en viðskipti með bréfin námu tæpum hálfum milljarði. Bréf Arion hækkuðu um 1,7% og stendur gengi félagsins í 152,5 krónum.
Á First-North markaðnum hækkaði flugfélagið Play um 1,3% og stendur gengi félagsins nú í 15,25 krónum.