Einar Örn Einarsson, stofnandi mathallar í Stokkhólmi og annar stofnenda Serrano hér á landi, hefur verið tilnefndur í stjórn Haga, móðurfélags Bónus, Hagkaups og Olís. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar fyrir aðalfund félagsins sem fer fram 27. maí næstkomandi.
Davíð Harðarson, sem hefur setið í stjórn Haga síðastliðin sjö ár og var um tíma stjórnarformaður, tilkynnti nefndinni að hann byði sig ekki fram til stjórnarsetu.
Alls bárust sex formleg framboð til stjórnar fyrir auglýstan frest nefndarinnar og voru þau frá fjórum núverandi stjórnarmönnum og tvö frá öðrum. Nefndin lagði til að þeir fjórir sitjandi stjórnarmenn sem gáfu kost á sér og Einar Örn verði kjörnir í stjórn félagsins.
Nefndin tilnefnir því eftirfarandi einstaklinga:
- Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður – tók fyrst sæti árið 2019
- Eva Bryndís Helgadóttir, varaformaður – tók fyrst sæti 2020
- Jensína Kristín Böðvarsdóttir, stjórnarmaður – tók fyrst sæti árið 2020
- Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarmaður – tók fyrst sæti árið 2022
- Einar Örn Einarsson, tilnefndur í stjórn
Einar Örn stofnaði Stockholm City Food Hall og alþjóðlegu keðjuna Zócalo, sem rekur 22 mexíkóska veitingastaði í Evrópu. Hann var einnig meðstofnandi Vår Pizza í Stokkhólmi og stofnaði Serrano á Íslandi, sem hann seldi eftir að hafa opnað tíu veitingastaði.
Einar Örn, sem er með B.A. gráðu í hagfræði frá Northwestern University, hefur setið í stjórnum Zócalo Holding, Keflavíkurflugvallar ohf. og er í varastjórn íþróttafélagsins Þróttar.
Einar Örn er framkvæmdastjóri Wok to Walk á Íslandi sem opnaði sinn fyrsta veitingastað hér á landi í desember síðastliðnum.
„Tilnefningarnefnd leggur til að Einar Örn Einarsson komi nýr inn í stjórnina. Einar Örn er frumkvöðull sem ólst upp í heildsölufyrirtæki með neytendavörur. Hann hefur stofnað og rekið fyrirtæki á neytendamarkaði, lengst af í Svíþjóð. Reynsla hans á sviði uppbyggingar fyrirtækja á neytendamarkaði og þróun tækni sem því tengist er víðtæk,“ segir í skýrslu nefndarinnar.
Nefndin segir að í samtölum við forstjóra og stjórnarmenn hafi komið fram að breytingar hafi orðið á rekstri Haga með kaupum á verslunarkeðjunni SMS í Færeyjum. Lögð sé rík áhersla á frekari þróun hjá félaginu.
Í tilnefningarnefnd Haga sitja Björg Sigurðardóttir, Björn Ágúst Björnsson og Kristjana Milla Snorradóttir. Björn Ágúst er formaður nefndarinnar.