Fjárfestingarfélag Warrens Buffett, Berkshire Hathaway, hélt áfram að minnka hlut sinn í tæknirisanum Apple á öðrum ársfjórðungi og seldi hluti að andvirði rúmlega 4 milljarða bandaríkjadollara.
Þetta var í fyrsta sinn síðan á þriðja ársfjórðungi 2024 sem félagið réðst í nýjar Apple-sölur, eftir að hafa áður selt meira en tvo þriðju hluta hlutafjárins í fyrirtækinu.
Samkvæmt nýrri skýrslu til verðbréfaeftirlitsins seldi Berkshire 20 milljónir hluta á tímabilinu frá apríl til júní. Félagið á núna 280 milljónir hluta í Apple sem eru metnir á 57,4 milljarða dollara.
Apple er þó enn stærsta einstaka eignin í 268 milljarða dollara hlutabréfasafni Berkshire og stendur fyrir um fimmtung af heildarvirði þess.
Hátt verðmat er helsta ástæðan
Fjárfestar telja að hátt verðmat Apple sé aðalástæðan fyrir sölunum. „Félagið er ekki að vaxa á hraða sem réttlætir svo hátt verðmat,“ sagði Darren Pollack hjá Cheviot, sem er hluthafi í Berkshire.
Sölurnar áttu sér stað á sveiflukenndu tímabili fyrir Apple, þar sem hlutabréfaverðið lækkaði tímabundið um meira en 30 prósent frá áramótum.
Félagið hefur orðið fyrir áhrifum af viðskiptastríði Donalds Trump Bandaríkjaforseta en hluturinn hefur þó hækkað um 12 prósent í júlí eftir að Tim Cook forstjóri lýsti yfir áformum um auknar fjárfestingar í Bandaríkjunum.
Félagið seldi einnig hluti í Bank of America og lauk alfarið við sölu á hlut sínum í fjarskiptafyrirtækinu T-Mobile.
Sölurnar leiddu til 4,2 milljarða dollara fjárfestingarhagnaðar á fjórðungnum.
Á sama tíma keypti Berkshire hluti fyrir 3,9 milljarða dollara, þar á meðal í olíufélaginu Chevron, pizzukeðjunni Domino’s Pizza og bruggaranum Constellation Brands, sem framleiðir Modelo og Corona fyrir bandaríska markaðinn.
Berkshire greindi einnig frá því að hafa keypt hluti í bandarísku byggingarfyrirtækjunum Lennar og DR Horton, auk stáliðnaðarins Nucor, á fyrsta fjórðungi og haldið áfram kaupum í Lennar og Nucor á öðrum fjórðungi.
Þá fjárfesti félagið í bandaríska sjúkratryggingafélaginu UnitedHealth fyrir 1,6 milljarða dollara.
Kaupin vekja athygli þar sem UnitedHealth hefur átt erfitt uppdráttar í ár, dregið til baka afkomuspá sína í maí og forstjóri þess, Andrew Witty, hefur sagt af sér.
Félagið sætir nú margvíslegum rannsóknum yfirvalda, þar á meðal sakamálarannsókn á Medicare-kerfinu.
Hlutabréf United Health hækkuðu um 10 prósent í viðskiptum eftir lokun markaða eftir að Berkshire greindi frá kaupum sínum.