Fjárfestingarfélag Warrens Buffett, Berkshire Hathaway, hélt áfram að minnka hlut sinn í tæknirisanum Apple á öðrum ársfjórðungi og seldi hluti að andvirði rúmlega 4 milljarða bandaríkjadollara.

Þetta var í fyrsta sinn síðan á þriðja ársfjórðungi 2024 sem félagið réðst í nýjar Apple-sölur, eftir að hafa áður selt meira en tvo þriðju hluta hlutafjárins í fyrirtækinu.

Samkvæmt nýrri skýrslu til verðbréfaeftirlitsins seldi Berkshire 20 milljónir hluta á tímabilinu frá apríl til júní. Félagið á núna 280 milljónir hluta í Apple sem eru metnir á 57,4 milljarða dollara.

Apple er þó enn stærsta einstaka eignin í 268 milljarða dollara hlutabréfasafni Berkshire og stendur fyrir um fimmtung af heildarvirði þess.

Hátt verðmat er helsta ástæðan

Fjár­festar telja að hátt verðmat App­le sé aðal­á­stæðan fyrir sölunum. „Félagið er ekki að vaxa á hraða sem rétt­lætir svo hátt verðmat,“ sagði Darren Pollack hjá Cheviot, sem er hlut­hafi í Berks­hire.

Sölurnar áttu sér stað á sveiflu­kenndu tíma­bili fyrir App­le, þar sem hluta­bréfa­verðið lækkaði tíma­bundið um meira en 30 pró­sent frá áramótum.

Félagið hefur orðið fyrir áhrifum af við­skipta­stríði Donalds Trump Bandaríkja­for­seta en hluturinn hefur þó hækkað um 12 pró­sent í júlí eftir að Tim Cook for­stjóri lýsti yfir áformum um auknar fjár­festingar í Bandaríkjunum.

Félagið seldi einnig hluti í Bank of America og lauk al­farið við sölu á hlut sínum í fjar­skipta­fyrir­tækinu T-Mobile.

Sölurnar leiddu til 4,2 milljarða dollara fjár­festingar­hagnaðar á fjórðungnum.

Á sama tíma keypti Berks­hire hluti fyrir 3,9 milljarða dollara, þar á meðal í olíufélaginu Chevron, pizzu­keðjunni Domino’s Pizza og bruggaranum Constella­tion Brands, sem fram­leiðir Modelo og Cor­ona fyrir bandaríska markaðinn.

Berks­hire greindi einnig frá því að hafa keypt hluti í bandarísku byggingar­fyrir­tækjunum Lennar og DR Horton, auk stáliðnaðarins Nucor, á fyrsta fjórðungi og haldið áfram kaupum í Lennar og Nucor á öðrum fjórðungi.

Þá fjár­festi félagið í bandaríska sjúkra­tryggingafélaginu United­Health fyrir 1,6 milljarða dollara.

Kaupin vekja at­hygli þar sem United­Health hefur átt erfitt upp­dráttar í ár, dregið til baka af­komu­spá sína í maí og for­stjóri þess, Andrew Witty, hefur sagt af sér.

Félagið sætir nú marg­vís­legum rannsóknum yfir­valda, þar á meðal sakamála­rannsókn á Medi­care-kerfinu.

Hluta­bréf United Health hækkuðu um 10 pró­sent í við­skiptum eftir lokun markaða eftir að Berks­hire greindi frá kaupum sínum.