Lyfjafyrirtækið Novo Nordisk, sem á síðustu árum hefur orðið burðarás í dönsku efnahagslífi, hefur lækkað tekju- og afkomuspá sína í ár.
Það hefur leitt til þess að bankar hafa lækkað hagvaxtarhorfur fyrir Danmörku og ýtt af stað umræðu um hvort landið gæti staðið frammi fyrir svipuðum áhrifum og þegar Nokia hrundi í Finnlandi fyrir rúmum tveimur áratugum.
Novo Nordisk er í dag líklega enn mikilvægara fyrir danska efnahagslífið en Nokia var fyrir það finnska þegar mest lét, samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen.
Nýjustu tölur benda til þess að starfsemi fyrirtækisins gæti numið að minnsta kosti 5% af landsframleiðslu Danmerkur.
Til samanburðar stóð Nokia fyrir um 2,6% af landsframleiðslu Finnlands rétt áður en fallið hófst 2008.
Lyfjaiðnaðurinn sem Novo ræður ríkjum í var á síðasta ári ábyrgur fyrir yfir 9% af vergum virðisauka landsins og um 1,2% allra starfa.
Nykredit hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir 2025 úr 3% í undir 1% og sér fram á minni vöxt einnig á næsta ári.
Áhrif Novo eitt og sér dregur hagvöxt niður um 0,1 prósentustig.
Danske Bank býst nú við um 1,5–2% hagvexti á þessu ári, miðað við fyrri spá um 3,2%.
Á undanförnum tveimur árum hefur lyfjaiðnaðurinn bætt meira en 2 prósentustigum við hagvöxt á ári.
Án þessa framlags hefði hagvöxtur verið neikvæður bæði 2022 og 2023, sem skýrir að hluta hvers vegna Danmörk hefur staðið sig mun betur en flest önnur Evrópulönd.
Børsen tekur þó fram að þótt samanburðurinn við Nokia sé á margan hátt freistandi bendi sérfræðingar á að staðan sé ólík.
Þegar Nokia hrundi var finnska hagkerfið þegar veikt og annar lykiliðnaður, pappírsframleiðsla, var líka í kreppu.
Þá var launaskrið og samkeppnishæfni atvinnulífsins rýrnuð, sem gerði öðrum greinum erfitt að taka við fallinu.
Í Danmörku er atvinnumarkaðurinn sterkur, launaþróun í iðnaði hófstillt og aðrir geirar hafa svigrúm til að taka við starfsfólki Novo ef til niðurskurðar kemur.
Novo hefur auk þess minna net innlendra undirverktaka en Nokia hafði, þó að fyrirtækið sé stór kaupandi í byggingageiranum og gæti dregið úr fjárfestingum þar.
Novo Nordisk er langstærsti greiðandi fyrirtækjaskatta í Danmörku.
Árið 2023 nam skattgreiðsla þess 15 milljörðum danskra króna, eða 15% af heildarinnheimtu fyrirtækjaskatts.
Til samanburðar var hlutdeild Nokia í finnska fyrirtækjaskattinum um 9% árið 2008.
Þó að lægri hagvöxtur dragi úr aukningu skatttekna er ekkert sem bendir til þess að greiðslur Novo minnki í bráð.
Þrátt fyrir að markaðsvirði Novo hafi lækkað um 65% á síðasta ári og að vöxtur fyrirtækisins sé minni en áður var spáð er fyrirtækið enn í vexti.
Sérfræðingar á borð við Palle Sørensen hjá Nykredit vara við ofviðbrögðum:
„Við erum að tala um hægari vöxt, ekki samdrátt,“ segir hann.
Sagan af Nokia sýnir að stórfyrirtæki geta haft gríðarleg áhrif á lítil hagkerfi, bæði til góðs og ills.
Í dag lifir finnska hagkerfið enn á þeirri þekkingu sem Nokia byggði upp á sínum tíma.
Sérfræðingar telja að sama kunni að gilda um Novo Nordisk, jafnvel þótt fyrirtækið standi frammi fyrir meiri mótvindi en áður.