Félagið Steindór ehf., sem hét áður U22 ehf., hagnaðist um 316 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaðinn má rekja til matsbreytingar upp á 400 milljónir króna á fasteignaverkefni félagsins á Steindórsreitnum svokallaða í Vesturbænum, þar sem uppbygging á 84 íbúða kjarna hefur staðið yfir undanfarin þrjú ár.
Fasteignaverkefnið var metið á hátt í 5,2 milljarða króna í árslok 2023. Á síðustu tveimur árum hefur félagið bókfært jákvæða matsbreytingu á reitnum upp á samtals 1.150 milljónir króna og eignfært yfir 2 milljarða króna í framkvæmdakostnað.
Steindór ehf. er til helminga í eigu Eignabyggðar, sem er eigu Hannesar Þórs Baldurssonar og Brynjólfs Smára Þorkelssonar, og fjárfestingafélagsins IREF, sem þeir Gunnar Sverrir Harðarson og Þórarinn Arnar Sævarsson eiga. Þeir tveir síðarnefndu er aðaleigendur Re/Max. Upphaflega var lóðin í eigu fasteignafélagsins Kaldalóns.
Félagið var með eigið fé upp á 2,3 milljarða króna og skuldir þess námu 3,1 milljarði í lok síðasta árs.
Átta íbúðir seldar
Steindórsreiturinn markast af Framnesvegi, Sólvallagötu og Hringbraut. Búið er að reisa 5 hæða bogadregið íbúðarhús með útsýni út á haf og fyrir aftan þau hafa tvö önnur íbúðarhús verið reist. Auk íbúðanna verður rými á jarðhæð bogadregna hússins fyrir verslun og þjónustu en undir húsunum verður bílakjallari með stæðum fyrir 86 bíla.
Framkvæmdir á reitnum hófust haustið 2021 og eru langt komnar. Þórarinn Arnar sagði í samtali við Viðskiptablaðið í vor að gert sé ráð fyrir að síðustu íbúðirnar á reitnum verði tilbúnar í haust.
Búið er að opna sérstakan söluvef fyrir Steindórsreitinn. Þar eru 8 af hinum 84 íbúðum merktar sem seldar.