Nokkrir reyndir fag­fjár­festar hafa þurft að bók­færa veru­legt tap á eignum sínum í Novo Nor­disk eftir að hluta­bréfa­verð félagsins hélt áfram að lækka, þvert á væntingar um að botninum hefði verið náð.

Á fyrri hluta ársins 2025 litu margir á lækkandi gengi danska lyfjarisans sem tækifæri til að auka við eignar­hlut sinn.

Verð bréfanna hafði þá fallið um 30% frá áramótum og verð/hagnaðar­hlut­fall (P/E) var komið niður í 15 – lægsta stig um ára­bil.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen töldu margir neikvæðar fregnir af félaginu væru þegar komnar fram í verði.


Kurt Kara, sjóðs­stjóri hjá Maj Invest, bréf í Novo Nor­disk skömmu fyrir birtingu árs­hluta­upp­gjörs annars árs­fjórðungs.

„Ég verð að viður­kenna að ég var of snemma á ferðinni,“ segir Kara í sam­tali við Børsen og bætir við að um­fang síðari af­komulækkunar hafi komið honum á óvart.

Johannes Møller, sjóðs­stjóri og með­eig­andi hjá MW Compounders, endur­nýjaði stöðu sína í árs­byrjun í þeirri trú að félagið myndi standa við leiðbeiningar sínar um af­komu.

„Ég hélt að við værum komin í gegnum það versta,“ segir hann.

Michael Hyb­holt, stofnandi Regulær Invest, hafði áður varað við of háu verði og óraun­hæfum vaxtar­væntingum en keypti bréf þegar verðið fór niður í 442 danskar krónur í lok maí.

Hann viður­kennir nú að sú ákvörðun hafi verið of snemm­búin.

Novo Nor­disk hefur á örfáum mánuðum gefið út tvær af­komulækkanir.

Sú síðari, sem til­kynnt var fyrir tveimur vikum, leiddi til þess að gengi bréfanna féll um 23% á einum degi.

Á síðustu 14 mánuðum hefur gengi hluta­bréfanna lækkað um 65% frá hæsta stigi, og P/E-hlut­fallið er nú 12,5 – lægsta gildi í rúm 20 ár.

Helstu ástæður lækkunar eru aukin sam­keppni á bandaríska þyngdar­taps­markaðnum frá ódýrum eftir­líkingum af lyfjum félagsins, sem og markaðssókn Eli Lilly.

Telja félagið samt undir verðlagt

Þrátt fyrir tapið hafa Kara og Møller nýtt nýjustu verðlækkunina til að auka við eignar­hlut sinn.

Kara telur að félagið sé nú „óeðli­lega lágt verðlagt“ og leggur til að stjórn beiti sér fyrir um­fangs­mikilli endur­kaupaáætlun, hag­ræðingu í rekstri og að forðast yfir­tökur til að há­marka virði fyrir hlut­hafa.

Møller segir að skammtímaáskoranir séu að verjast fölsunum í Bandaríkjunum og endur­heimta markaðs­hlut­deild frá Eli Lilly. Til lengri tíma þurfi að finna arf­taka virka efnisins sem agluti­de áður en einka­leyfi rennur út eftir 6–7 ár.

Báðir sjóðs­stjórarnir segjast ætla að halda bréfunum og bíða þess að nýr for­stjóri, Mike Doustdar, nái að snúa rekstrinum við.

„Ef Novo gerir réttu hlutina getum við séð veru­lega við­spyrnu,“ segir Kara en viður­kennir að engin trygging sé fyrir því að botninum hafi verið náð.