Nokkrir reyndir fagfjárfestar hafa þurft að bókfæra verulegt tap á eignum sínum í Novo Nordisk eftir að hlutabréfaverð félagsins hélt áfram að lækka, þvert á væntingar um að botninum hefði verið náð.
Á fyrri hluta ársins 2025 litu margir á lækkandi gengi danska lyfjarisans sem tækifæri til að auka við eignarhlut sinn.
Verð bréfanna hafði þá fallið um 30% frá áramótum og verð/hagnaðarhlutfall (P/E) var komið niður í 15 – lægsta stig um árabil.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen töldu margir neikvæðar fregnir af félaginu væru þegar komnar fram í verði.
Kurt Kara, sjóðsstjóri hjá Maj Invest, bréf í Novo Nordisk skömmu fyrir birtingu árshlutauppgjörs annars ársfjórðungs.
„Ég verð að viðurkenna að ég var of snemma á ferðinni,“ segir Kara í samtali við Børsen og bætir við að umfang síðari afkomulækkunar hafi komið honum á óvart.
Johannes Møller, sjóðsstjóri og meðeigandi hjá MW Compounders, endurnýjaði stöðu sína í ársbyrjun í þeirri trú að félagið myndi standa við leiðbeiningar sínar um afkomu.
„Ég hélt að við værum komin í gegnum það versta,“ segir hann.
Michael Hybholt, stofnandi Regulær Invest, hafði áður varað við of háu verði og óraunhæfum vaxtarvæntingum en keypti bréf þegar verðið fór niður í 442 danskar krónur í lok maí.
Hann viðurkennir nú að sú ákvörðun hafi verið of snemmbúin.
Novo Nordisk hefur á örfáum mánuðum gefið út tvær afkomulækkanir.
Sú síðari, sem tilkynnt var fyrir tveimur vikum, leiddi til þess að gengi bréfanna féll um 23% á einum degi.
Á síðustu 14 mánuðum hefur gengi hlutabréfanna lækkað um 65% frá hæsta stigi, og P/E-hlutfallið er nú 12,5 – lægsta gildi í rúm 20 ár.
Helstu ástæður lækkunar eru aukin samkeppni á bandaríska þyngdartapsmarkaðnum frá ódýrum eftirlíkingum af lyfjum félagsins, sem og markaðssókn Eli Lilly.
Telja félagið samt undir verðlagt
Þrátt fyrir tapið hafa Kara og Møller nýtt nýjustu verðlækkunina til að auka við eignarhlut sinn.
Kara telur að félagið sé nú „óeðlilega lágt verðlagt“ og leggur til að stjórn beiti sér fyrir umfangsmikilli endurkaupaáætlun, hagræðingu í rekstri og að forðast yfirtökur til að hámarka virði fyrir hluthafa.
Møller segir að skammtímaáskoranir séu að verjast fölsunum í Bandaríkjunum og endurheimta markaðshlutdeild frá Eli Lilly. Til lengri tíma þurfi að finna arftaka virka efnisins sem aglutide áður en einkaleyfi rennur út eftir 6–7 ár.
Báðir sjóðsstjórarnir segjast ætla að halda bréfunum og bíða þess að nýr forstjóri, Mike Doustdar, nái að snúa rekstrinum við.
„Ef Novo gerir réttu hlutina getum við séð verulega viðspyrnu,“ segir Kara en viðurkennir að engin trygging sé fyrir því að botninum hafi verið náð.