Eigendur tveggja rótgróinna fiskvinnsla í Suðurnesjabæ, Fiskverkun Ásbergs og Flatfisks, hafa komist að samkomulagi um að sameina rekstur félaganna. Mun starfsemi hins sameinaða félags verða rekin í húsnæði Fiskverkunar Ásbergs og undir merkjum þess félags. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Öllum starfsmönnum Flatfisks mun verða boðið að vinna hjá hinu sameinaða félagi, en samruninn er háður samþykki Samkeppniseftirlitsins á viðskiptunum. Mar Advisors var ráðgjafi eigenda í viðskiptunum.

Fiskverkun Ásbergs er dótturfélag útgerðarfélagsins Nesfisks. Elfar Bergþórsson og Björgvin Ólafur Gunnarsson eiga Flatfisk til helminga.

Elfar Bergþórsson, framkvæmdastjóri Flatfisks:

„Við sjáum mikil tækifæri í að sameina krafta okkar undir merkjum Fiskverkunnar Ásbergs. Með stærri og öflugri einingu munum við betur geta sinnt okkar stóra hóp viðskiptavina, hvort sem er á Íslandi eða á erlendum mörkuðum."

Bergþór Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ásbergs:

„Flatfiskur hefur verið ein af öflugri vinnslum landsins á sínu sérsviði, og það er mikið gleðiefni fyrir okkur að fá hið öfluga starfsfólk fyrirtækisins til liðs við Fiskverkun Ásbergs."