Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, sagði í viðtali við Bloomberg í dag að stýrivextir í landinu ættu sennilega að vera 150–175 punktum lægri en þeir eru um þessar mundir.

Bessent sagði að Seðlabanki Bandaríkjanna gæti ráðist í röð vaxtalækkana á næstu mánuðum og jafnvel byrjað með hálfs prósenta lækkun í september næstkomandi. „Það eru mjög góð líkur á 50 punkta vaxtalækkun,“ sagði Bessent.

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur haldið stýrivöxtum sínum óbreyttum í 4,25-4,5% á þessu ári. Síðasta vaxtaákvörðun bankans var fyrir tveimur vikum.

Ummæli Bessent fylgja í kjölfar nýrra verðbólgutalna í gær. Verðbólga mældist óbreytt í 2,7% og var undir spám hagfræðinga. Kjarnaverðbólga jókst hins vegar umfram væntingar og mældist 3,1%.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið afar gagnrýninn á seðlabankann og þá sérstaklega seðlabankastjórann Jerome Powell, einkum þar sem bankinn hefur ekki lækkað stýrivexti undanfarna mánuði.

Trump fór eftirminnilega í opinbera heimsókn til seðlabankans í lok síðasta mánaðar og þræddi þar við Powell um kostnað vegna endurbóta bankans á tveimur sögufrægum byggingum fyrir framan fréttamenn.

Skipunartími Powell rennur út í maí 2026.