Bandaríska fjártæknifyrirtækið Better Mortgage, sem Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, er meðal lykilfjárfesta í, sagði upp yfir 250 manns í síðasta mánuði, samkvæmt heimildum TechCrunch.
Lista af fólki sem segja átti upp var lekið innan fyrirtækisins og ákváðu stjórnendur Better þá að grípa til „tafarlausra uppsagna“ þremur dögum á undan áætlun.
Um er að ræða fjórðu uppsagnarhrinu á innan við einu ári hjá Better, sem hyggst fara á hlutabréfamarkað með samruna við Aurora, sérhæfðs yfirtökufélags á vegum Novator.
Better komst í heimsfréttirnar í lok síðasta árs þegar hinn litríki forstjóri Vishal Garg sagði upp 900 af þá um tíu þúsund starfsmönnum Better á Zoom fundi. Félagið réðst í tvær uppsagnarhrinur í vor og sagði upp ríflega 4 þúsund manns. Starfsmönnum fyrirtækisins fækkaði því um rúmlega helming á þessum fimm mánuðum.
Mikið tap af rekstrinum
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað þá hefur Better, sem býður upp á ýmsar fjártæknilausnir á húsnæðismarkaði, átt í miklum rekstrarerfiðleikum að undanförnu. Félagið naut góðs af lágu vaxtastigi og miklum áhuga bandarísks almennings á að endurfjármagna lán sín í upphafi Covid-faraldursins.
Hækkandi vextir og minni umsvif við endurfjármögnun lána hafa hins vegar gert Better erfitt fyrir. Better tapaði um 304 milljónum dala, eða um 42,5 milljörðum króna, á síðasta ári. Félagið tapaði 46 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi þessa árs samanborið við 11,5 milljarða króna hagnað á fyrsta fjórðungi 2021. Hluta af tapinu má rekja til einskiptisliða vegna hópuppsagna og vaxtagjalda af brúarláninu.
Til að bæta gráu ofan á svart höfðaði fyrrverandi stjórnandi hjá Better nýlega mál gegn fyrirtækinu og sakaði það um að villa fyrir fjárfestum í skráningargögnum og fjárfestakynningum í aðdraganda samrunans og skráningarinnar. Í sumar hóf Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) rannsókn á mögulegum brotum fjártæknifyrirtækisins á lögum um verðbréfaviðskipti og kallaði eftir gögnum frá Better og Aurora.
Better Mortgage - 2022 F1
206 milljónir dala |
327 milljónir dala |
2.289 milljónir dala |
-74 milljónir dala |
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.