Félagslegir demókratar unnu í gær mikilvægan kosningasigur í Neðra-Saxlandi í Þýskalandi, sem talinn er sýna stuðning við kanslara landsins, Olaf Scholz.

Stjórnarflokkurinn hafði samkvæmt síðustu spám hlotið rétt um þriðjung atkvæða á móti 28% hjá þeirra helsta keppinaut, Kristilegum demókrötum, þegar Financial times fjallaði um málið. Ekki hafa öll atkvæði verið talin enn, en slík niðurstaða yrði sú versta þar fyrir síðarnefnda flokkinn, flokk Angelu Merkel fyrrum kanslara, síðan 1955.

Flokkur kanslarans hefur verið í stjórnarsamstarfi með kristilegum systurflokki sínum og hefur nú í ljósi niðurstöðunnar val um að halda því áfram eða mynda nýjan meirihluta með Græna flokknum, sem hann vann með árin 2013-2017.

Litið var á kosninguna sem prófraun fyrir Scholz og meðhöndlun hans á Úkraínustríðinu og orkukrísunni sem það hefur leitt til. Sigurinn er þannig talinn til marks um að kjósendur, í það minnsta í Neðra-Saxlandi, styðji kanslarann og ríkisstjórn hans áfram, en auk þess hefur hann verið þakkaður vinsældum Stephans Weil, forsætisráðherra fylkisins og leiðtoga flokksins þar.