Hlutabréfaverð Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, hefur lækkað um 17% í morgun eftir að fyrirtækið greindi frá frekari afskriftum á starfsemi sinni í Bandaríkjunum eftir lokun markaða í gær.

Samkvæmt kauphallartilkynningu Ørsted er félagið að afskrifa um 12,1 milljarð danskra króna eða um 236 milljarða íslenskra króna í tengslum við vindmylluverkefni sín við strendur Bandaríkjanna.

Í tilkynningunni segir Ørsted hækkandi vaxtastig, áskoranir í aðfangakeðju og óvissu á markaði um lækkun á verðmæti leigulanda fyrir hafsvæði sín vera ástæðu afskriftanna.

En tilkynning gærdagsins kemur í kjölfar af­skrifta upp á 28,4 milljarða danskra króna vegna bandarískrar starf­semi fyrir­tækisins árið 2023.

Þær af­skriftir voru einnig raktar til hækkandi vaxta­stigs og vanda­mála í að­fanga­keðjunni en sam­kvæmt Financial Times vekur til­kynning gær­dagsins nú upp fleiri spurningar um stefnu Ørsted í Bandaríkjunum.

Til viðbótar þessu tók Donald Trump form­lega við em­bætti for­seta Bandaríkjanna í gær en hann hét því í kosninga­baráttu sinni að stöðva vindorku­verk­efni úti á hafi „strax á fyrsta degi“ í em­bætti.

Í til­kynningu frá Hvíta húsinu segir að orku­stefna Trumps „muni binda enda á leigu til risa­vaxinna vindorku­verk­efna sem spilla náttúru­legu lands­lagi okkar og þjóna ekki orkuþörfum Bandaríkja­manna“.

Trump hyggst einnig draga Bandaríkin úr Parísar­sam­komu­laginu um lofts­lags­mál frá 2015.

Mads Nipper, for­stjóri Ørsted, segir af­skriftirnar „mjög svekkjandi“, en lagði áherslu á að fyrir­tækið væri áfram staðráðið í að halda uppi starf­semi í Bandaríkjunum til lengri tíma.

„Við höldum áfram að sigla í gegnum þær flóknu og óút­reiknan­legu aðstæður sem ein­kenna vindorku­iðnaðinn í Bandaríkjunum,“ sagði hann.

Miklar áskoranir vestanhafs

Ørsted hóf starf­semi sína í Bandaríkjunum árið 2018 en fyrir­tækið er frum­kvöðull í vindorku­iðnaðinum.

Sam­kvæmt FT hefur þó starf­semi Dana í Bandaríkjunum ein­kennst af erfið­leikum vegna hækkandi vaxta­stigs og truflana í að­fanga­keðjunni eftir CO­VID-far­aldurinn.

Í nóvember 2023 til­kynnti fyrir­tækið að það myndi hætta við tvö verk­efni við strendur New Jer­s­ey, sem olli miklum titringi meðal fjár­festa.

Þá hafði fyrir­tækið til­kynnt um 28,4 milljarða danskra króna af­skriftir, sem voru meiri en markaðurinn bjóst við.

Í febrúar 2024 lýsti Ørsted yfir að­gerðum til að snúa við rekstrinum, þar á meðal stöðvun arð­greiðslna, upp­sögnum allt að 800 starfs­manna og brott­hvarfi frá vindorkumörkuðum í Noregi, Spáni og Portúgal til að ein­beita sér að kjarna­mörkuðum.

Í nýjustu til­kynningu sinni greindi Ørsted frá því að hækkun langtíma­vaxta í Bandaríkjunum hafi aukið fjár­magns­kostnað fyrir­tækisins, sem skýrir af­skriftir upp á 4,3 milljarða danskra króna af heildar­upp­hæðinni.

Aðrar 3,5 milljarða króna af­skriftir eru raktar til óvissu á markaði, sem hefur haft áhrif á verðmæti nokkurra leigu­landa fyrir hafs­væði, og loks nema 4,3 milljarða króna töfum á Sun­rise Wind-verk­efninu við strendur New York.

Áætlað er að það verði komið í notkun á síðari hluta árs 2027.

Viðhalda spám um rekstrar­hagnað

Þrátt fyrir þessar áskoranir sagði Ørsted að fyrir­tækið hygðist viðhalda spám sínum um rekstrar­hagnað upp á 24,8 milljarða danskra króna fyrir árið 2024.

Fram­leiðsla vindorku­vera fyrir­tækisins, bæði á landi og á hafi, hafi staðið undir væntingum. Tekjur árið 2023 námu 79,3 milljörðum danskra króna.

Gengi hluta­bréfa fyrir­tækisins hefur fallið um nærri 32 pró­sent á síðustu tólf mánuðum og er nú um 80 pró­sentum undir há­punkti sínum frá janúar 2021 þegar áhugi á um­hverfis­vænum fjár­festingum náði há­marki.