Hlutabréfaverð Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, hefur lækkað um 17% í morgun eftir að fyrirtækið greindi frá frekari afskriftum á starfsemi sinni í Bandaríkjunum eftir lokun markaða í gær.
Samkvæmt kauphallartilkynningu Ørsted er félagið að afskrifa um 12,1 milljarð danskra króna eða um 236 milljarða íslenskra króna í tengslum við vindmylluverkefni sín við strendur Bandaríkjanna.
Í tilkynningunni segir Ørsted hækkandi vaxtastig, áskoranir í aðfangakeðju og óvissu á markaði um lækkun á verðmæti leigulanda fyrir hafsvæði sín vera ástæðu afskriftanna.
En tilkynning gærdagsins kemur í kjölfar afskrifta upp á 28,4 milljarða danskra króna vegna bandarískrar starfsemi fyrirtækisins árið 2023.
Þær afskriftir voru einnig raktar til hækkandi vaxtastigs og vandamála í aðfangakeðjunni en samkvæmt Financial Times vekur tilkynning gærdagsins nú upp fleiri spurningar um stefnu Ørsted í Bandaríkjunum.
Til viðbótar þessu tók Donald Trump formlega við embætti forseta Bandaríkjanna í gær en hann hét því í kosningabaráttu sinni að stöðva vindorkuverkefni úti á hafi „strax á fyrsta degi“ í embætti.
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að orkustefna Trumps „muni binda enda á leigu til risavaxinna vindorkuverkefna sem spilla náttúrulegu landslagi okkar og þjóna ekki orkuþörfum Bandaríkjamanna“.
Trump hyggst einnig draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál frá 2015.
Mads Nipper, forstjóri Ørsted, segir afskriftirnar „mjög svekkjandi“, en lagði áherslu á að fyrirtækið væri áfram staðráðið í að halda uppi starfsemi í Bandaríkjunum til lengri tíma.
„Við höldum áfram að sigla í gegnum þær flóknu og óútreiknanlegu aðstæður sem einkenna vindorkuiðnaðinn í Bandaríkjunum,“ sagði hann.
Miklar áskoranir vestanhafs
Ørsted hóf starfsemi sína í Bandaríkjunum árið 2018 en fyrirtækið er frumkvöðull í vindorkuiðnaðinum.
Samkvæmt FT hefur þó starfsemi Dana í Bandaríkjunum einkennst af erfiðleikum vegna hækkandi vaxtastigs og truflana í aðfangakeðjunni eftir COVID-faraldurinn.
Í nóvember 2023 tilkynnti fyrirtækið að það myndi hætta við tvö verkefni við strendur New Jersey, sem olli miklum titringi meðal fjárfesta.
Þá hafði fyrirtækið tilkynnt um 28,4 milljarða danskra króna afskriftir, sem voru meiri en markaðurinn bjóst við.
Í febrúar 2024 lýsti Ørsted yfir aðgerðum til að snúa við rekstrinum, þar á meðal stöðvun arðgreiðslna, uppsögnum allt að 800 starfsmanna og brotthvarfi frá vindorkumörkuðum í Noregi, Spáni og Portúgal til að einbeita sér að kjarnamörkuðum.
Í nýjustu tilkynningu sinni greindi Ørsted frá því að hækkun langtímavaxta í Bandaríkjunum hafi aukið fjármagnskostnað fyrirtækisins, sem skýrir afskriftir upp á 4,3 milljarða danskra króna af heildarupphæðinni.
Aðrar 3,5 milljarða króna afskriftir eru raktar til óvissu á markaði, sem hefur haft áhrif á verðmæti nokkurra leigulanda fyrir hafsvæði, og loks nema 4,3 milljarða króna töfum á Sunrise Wind-verkefninu við strendur New York.
Áætlað er að það verði komið í notkun á síðari hluta árs 2027.
Viðhalda spám um rekstrarhagnað
Þrátt fyrir þessar áskoranir sagði Ørsted að fyrirtækið hygðist viðhalda spám sínum um rekstrarhagnað upp á 24,8 milljarða danskra króna fyrir árið 2024.
Framleiðsla vindorkuvera fyrirtækisins, bæði á landi og á hafi, hafi staðið undir væntingum. Tekjur árið 2023 námu 79,3 milljörðum danskra króna.
Gengi hlutabréfa fyrirtækisins hefur fallið um nærri 32 prósent á síðustu tólf mánuðum og er nú um 80 prósentum undir hápunkti sínum frá janúar 2021 þegar áhugi á umhverfisvænum fjárfestingum náði hámarki.