Stuttu áður en Alþingi fór í jólafrí var frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur samþykkt. Frumvarpið byggði að meginefni til á tillögum starfshóps, sem skipaður var 2017, um heildarendurskoðun á regluverki um leigubifreiðar. Með frumvarpinu er skapaður grundvöllur fyrir fjölbreyttari þjónustu, en þó liggur fyrir að líklega þurfi að gera breytingar á reglugerðum til að erlendar farveitur muni sjá sér fært að starfa hér á landi.
Í dag er til að mynda gerð krafa um símsvörun á leigubílastöðvum meirihluta sólarhringsins, sem gengur gegn eðli farveita á borð við Uber og Lyft. Reglugerðarheimildin sem ráðherra hefur til að útfæra nánar hlutverk og skyldur leigubílastöðva er mjög opin og mætti því segja að grundvöllur fyrir erlendar farveitur sé í raun í höndum innviðaráðherra.
Opna markaðinn og auka samkeppni
Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur sem sat í áðurnefndum starfshóp, segir lagabreytinguna ótvírætt hafa í för með sér meira frelsi á leigubílamarkaði. Það hafi mikla þýðingu að búið sé að afnema hámarksfjölda leyfa og gera leigubílstjórum kleift að taka saman höndum og stofna félög utan um reksturinn, en áður hefðu þeir þurft að vera einyrkjar. „Það er hægt að sjá fyrir sér að það muni hafa í för með sér aukið hagræði í rekstri. Fólk getur þannig keypt bíla í einhverju magni og verið með bílstjóra sem launþega, sem ætti þá að auka öryggi þeirra,“ segir Jóhannes.
Hann segir að eftir að lögin taki gildi megi reikna með því að farveitur á við Uber eða Lyft geti komið inn á íslenska markaðinn. Aftur á móti séu ákveðnar séríslenskar reglur eins og stöðvaskyldan ennþá í gildi. „Að því sögðu þá er stöðvaskyldan hálfpartinn táknræn, því hver sem er getur stofnað leigubílastöð. Svo á eftir að koma í ljós hvort erlendu farveiturnar hafi áhuga á því að koma til landsins.“
Þá hafi verið gengið út frá gömlum tímum í reglugerð og meðal annars gert ráð fyrir að stöðvarnar bjóði afgreiðslu með símaþjónustu frá klukkan sjö á morgnanna til miðnættis. „Það á eftir að koma í ljós hvernig nýja reglugerðin verður útfærð, en búast má við því að símaþjónustan verði felld í burtu – með fyrirvara um að reglugerðarheimildin er mjög opin og engin skylda á ráðherra að afnema skilyrðið.“
Þrátt fyrir að stórt skref sé tekið í frelsisátt með nýju lögunum – verið sé að opna markaðinn og auka samkeppnina, þá standi ákveðnar hindranir enn eftir. Til að mynda sé bæði kostnaðarsamt og tímafrekt að fá leigubílapróf. „Eins og staðan er í dag þá kostar námskeiðið um 250 þúsund krónur og tekur heila vinnuviku. Það er frekar hár fórnarkostnaður fyrir einstakling sem hefur hug á að keyra leigubíl í hlutastarfi.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag.