Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir félagið hafa mjög skýra framtíðarsýn. Það ætli sér að umbylta grunnkerfum matvælaiðnaðar í heiminum, í nánu samstarfi við viðskiptavini í matvælaframleiðslu.

„Við störfum í yfir 30 löndum og sinnum viðskiptavinum í 140 löndum.  Við svörum kalli neytenda, í samstarfi við viðskiptavini okkar og þeirra viðskiptavini, sem eru verslanakeðjur, veitingastaðir og netverslanir. Neytendur vilja ljúffengan mat á hverjum degi, sem er hollur, næringarríkur og á viðráðanlegu verði. Það er útgangspunkturinn í því sem við hjá Marel gerum.“

Árni Oddur segir samkeppnisstöðu Marel vera sterka, enda sé fyrirtækið með öflugt vöru- og þjónustuframboð til að svara ákalli viðskiptavina um aukna sjálfvirknivæðingu og skilvirkni rekstar.

„Drifkraftar aukinnar eftirspurnar eru í fyrsta lagi mikið launaskrið og skortur á hæfu starfsfólki,“ segir hann og bendir í því samhengi á að grunnlaun starfsfólks í kjúklinga og kjötvinnslu í Bandaríkjunum og Evrópu hafi aukist um fjórðung á tveimur árum og veltuhraði starfsfólks margfaldast.

„Annar stór liður í aukinni spurn er að sveiflur á milli verslunar, heimsendingar í gegnum netverslun og veitingastaða hefur aukist, sem kallar á aukinn sveigjanleika í vöruframboði viðskiptavina. Þriðji krafturinn er ákall um aukna sjálfbærni sem stutt er af hárri verðbólgu þar sem sjálfbærniáherslur eru öðru fremur að framleiða með aukinni nýtingu, betri meðhöndlun, minni rýrnun og minni notkun á vatni og rafmagni.“

Starfsfólkið vaxi með fyrirtækinu

Árni Oddur segir að samhliða vexti félagsins skapist tækifæri til að gefa starfsfólki félagsins færi á að vaxa og dafna með félaginu. „Þegar við rýnum í ástæður þess að fólk kemur til starfa hjá félaginu blasir við að það heillar að taka þátt í að umbreyta matvælaframleiðslu og að Marel sé hratt vaxandi hátæknifyrirtæki sem skili hagnaði og sterku sjóðsstreymi.“

Hann segir mannauð Marel vera lykilinn að árangri félagsins. Félagið leggi því mikið í að rækta starfsfólk sitt og bjóða því upp á lifandi vinnuumhverfi. „Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi vaxið mjög á undanförnum árum og starfsmannafjöldi margfaldast, er nýsköpun áfram þungamiðja Marel og ríkur frumkvöðlaandi í fyrirtækinu. Bestu lausnirnar fæðast í fjölbreyttum hópum, þar sem jafnrétti og þátttaka allra tryggir öllum tækifæri til að láta ljós sitt skína.“

Til að viðhalda sprotamenningu í vaxandi fyrirtæki segir Árni Oddur töfrana felast í því að setja skýran ramma um hlutverk og ábyrgð en um leið gefa starfsfólkinu frelsi til ákvörðunartöku innan hans. „Þannig viðhöldum við snerpu sprotafyrirtækja og erum trú uppruna okkar og sköpunarkrafti, sem skilar sér í arðsemi til hluthafanna.“

Fjórða stoðin fæðist

Fyrr á árinu dró til tíðinda þegar Marel gekk frá kaupum á Wenger, fyrirtæki sem er leiðandi í lausnum og þjónustu fyrir framleiðendur á ört vaxandi neytendavörumarkaði með afurðir úr plöntupróteinum, auk fóðurs fyrir gæludýr og fiskeldi. Með kaupunum bættist fjórða stoðin við viðskiptamódel Marel, til viðbótar við núverandi starfsemi í alifugla-, kjöt- og fiskiðnaði. Árni Oddur lítur björtum augum til framtíðarinnar og segir markmiðið vera að halda áfram að vaxa og skila ásættanlegum vexti til hluthafa.

„Líkt og viðskiptavinir okkar og birgjar eru að sjálfvirknivæða rekstur til að takast á við breytt flæði, erum við líka að fjárfesta vel í innviðum okkar með fókus á einföldun rekstrar, hraða og skölun tekna með aukinni framlegð. Við erum með skýr og metnaðarfull rekstrarmarkmið sem við höfum kynnt. Sterkur rekstur og sjóðsstreymi eru forsendur þess að halda áfram að vera í fremstu röð í nýsköpun og halda áfram að umbylta matvælamarkaði. Þannig höldum við áfram að vaxa og dafna, styðja við vöxt viðskiptavina og skila hluthöfum góðri ávöxtun. Við tökum skipið ekki í slipp þegar á móti blæs, heldur högum seglum eftir vindi og höldum áfram að sigla. Saga félagsins hefur einkennst af samfelldum vexti í gegnum hagsveiflur allt frá skráningu þess,“ segir Árni Oddur, en hann fer þó ekki í grafgötur með að alþjóðlegar markaðsaðstæður hafi verið krefjandi að undanförnu og að skýr krafa sé um rekstrarbata.

„Við erum ávallt meðvituð um að skemmri tíma rekstrarframmistaða fjármagnar langtímaáætlanir okkar og höfum augun áfram á boltanum – við ætlum okkur að halda áfram að vaxa og vera fyrirmyndarfyrirtæki til frambúðar,“ segir Árni Oddur að lokum.

Viðtalið birtist í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.