Áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) hefur staðfest ákvarðanir EUIPO um að vörumerkjaskráning Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu Iceland í Evrópusambandinu væri ógild og að skráningarnar skuli felldar úr gildi. Greint er frá þessu á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins (SA).
EUIPO féllst á kröfur íslenska ríkisins, Íslandsstofu og SA árið 2019 þegar stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að vörumerkjaskráning verslunarkeðjunnar á orðmerkinu Iceland væri ógild í heild sinni. Iceland Foods Ltd ætti hins vegar áfram orð- og myndmerki sitt og gæti haldið áfram að stunda viðskipti undir nafninu, en hefði ekki rétt til að stöðva skráningu íslenskra fyrirtækja sem nýta heitið.
Breska verslunarkeðjan vildi ekki una þessu og skaut málinu því til áfrýjunarnefndar EUIPO, sem nú hefur staðfest ákvörðunina.
Íslenska ríkið, ásamt Íslandsstofu og Samtökum atvinnulífsins (SA), greip árið 2016 til aðgerða gegn skráningu Iceland Foods Ltd á vörumerkinu ICELAND innan Evrópusambandsins.
Iceland Foods Ltd, sem upphaflega skráði vörumerkið árið 2014, hefur einnig skráð vörumerkið í fjölda annarra landa og beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu á vörum sínum og þjónustu. Til að mynda hefur verslunarkeðjan sett sig upp á móti skráningu íslenskra vörumerkja á borð við INSPIRED BY ICELAND og ICELANDIC.