Málmleitarfélagið Amaroq aflaði sér sínar fyrstu tekna upp á 3,4 milljónir Kanadadollara á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur ríflega 300 milljónum króna.
Amaroq, sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænland, birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung í morgun.
„Á öðrum ársfjórðungi náðum við þeim stóra áfanga að framleiða, flytja út og selja gull og afla þar með fyrstu tekna félagsins upp á C$3.4 milljónir,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq í uppgjörstilkynningu félagsins. Fyrsta steypa Amaroq á gulli fór fram í lok nóvember 2024.
„Við náðum einnig þeim árangri keyra tæplega fjórfalt meira af gullberandi efni í gegnum vinnslustöðina heldur en á fyrsta ársfjórðungi og tekið tæplega þrefalt meira magn efnis úr námunni. Þessar framfarir hafa síðan haldið áfram það sem af er þriðja ársfjórðungs, og höfum við þegar steypt yfir 36 kg af gullstöngum.“
Félagið skilaði rekstrartapi upp á 4,9 milljónir Kanadadollara á ársfjórðungnum eða um 430 milljónum króna.
Eignir Amaroq voru bókfærðar á 342 milljónir Kanadadollar eða um 30 milljarða króna og eigið fé var um 274 milljónir Kanadadollara eða um 24 milljarðar króna. Þess má geta að Amaroq lauk 7,6 milljarða króna hlutafjáraukningu í júní síðastliðnum.
Stöðva vinnslu efnis í október
Amaroq segist nú stefna á framleiðslu á um 5 þúsund únsum af gulli á árinu 2025. Félagið hafði áður gefið út að stefnt yrði að gullframleiðslu á bilinu 5-20 þúsund únsa í ár. Áform eru því við lægra bilið af því sem félagið hafði áður gefið út.
Heimsmarkaðsverð á gulli stendur í 3.355 Bandaríkjadölum á únsu í dag. Sé miðað við núverandi heimsmarkaðsverð er virði 5 þúsund únsa af gulli um 16,8 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2 milljörðum króna.
Eldur segir að samhliða áframhaldandi framförum í gangsetningu námunnar, sem og meiri sveigjanleika í kjölfar hlutafjáraukningarinnar, hafi félagið ákveðið að flýta ákveðnum framkvæmdaþáttum flotrásarinnar (e. flotation circuit), sem muni auka við endurheimtur á vinnslu gulls í Nalunaq.
„Til að ná þeim markmiðum stefnum við á að stöðva vinnslu efnis í október á meðan sú vinna er yfirstandandi, sem mun gera okkur kleift að ljúka mikilvægum verkþáttum áður en vetrartíðin hefst. Samtímis mun vinnsla efnis úr námunni halda áfram með venjubundnum hætti.“