Arnar Sigurðsson, eigandi netverslunarinnar Santewines, áætlar að hann gæti boðið upp á 37%-41% ódýrari bjór heldur en Fríhöfnin ef hann stæði frammi fyrir sömu opinberu gjöldum og tollfrjálsa verslunin sem er rekin af Isavia.

„Þetta er bara einfalt, hið opinbera heldur úti smásölureksti. Það treystir sér ekki til að keppa á jafnræðisgrundvelli og borgar ekki sömu skattana og við,“ segir Arnar í samtali við Viðskiptablaðið. „Það er ekkert dýrara að reka verslun í Keflavík heldur en í Reykjavík.“

Vörur Fríhafnarinnar eru undanþegnar virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum. Þá þarf Fríhöfnin einungis að leggja á 10% af hinu almenna áfengisgjaldi.

Arnar áætlar að ef hann myndi borga sama áfengisgjald og Fríhöfnin, ásamt því að vera undanþegin virðisaukaskatti, þá gæti hann boðið upp á staka 33 cl. Carlsberg dós á 142 krónur, sem er 37% minna en í Fríhöfninni þar sem sami bjór kostar 227 krónur. Í tilviki 33 cl. glerflösku af Stella Artois gæti Sante boðið 41% lægra verð.

Í netverslun Sante.is, sem líkt og fyrr segir lýtur að hefðbundnum opinberum gjöldum, kostar lítill Carlsberg 280 krónur og lítil glerflaska af Stellu 305 krónur.

Spurður hvað liggi að baki þessari verðlagningu hjá Fríhöfninni, þá segir Arnar að það sé bæði óhagkvæmur rekstur og að ríkið nýti stöðu sína til að rukka há verð. „Þeir eru með um 100% álagningu að meðaltali á vörunum sem þeir eru að selja. Þess vegna er þetta allt svo dýrt.

Sjá einnig: Áfengisverð 15-20% of hátt

Fólk labbar þarna inn í góðri trú um að það sé að gera góð kaup. Svo kemur í ljós að þú ert oftast að borga miklu hærra verð en í bænum, hvort sem það er sælgæti, rakvélablöð eða annað. Það sama á við um vínið.“

Lækka bara húsaleiguna á móti

Arnar minnist einnig á húsaleiguna sem Fríhöfnin greiðir móðurfélagi sínu Isavia. Húsnæðiskostnaður Fríhafnarinnar nam 4,2 milljörðum króna árið 2019, áður en Covid-áhrifa gætti, en var um 1 milljarður árið 2020 og 1,6 milljarðar árið 2021 við minni umsvif í faraldrinum.

„Til þess að halda í þessa háu húsaleigu, þá verða þeir að rukka hátt verð. Það eru auðvitað bara viðskiptavinirnir sem greiða fyrir húsaleiguna að lokum.“

Sjá einnig: Ginflaska í fríhöfninni hækki um 2.300 krónur

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2023 kemur fram að áfengisgjald í Fríhöfninni verði hækkað úr 10% í 25% af hinu almenna áfengisgjaldi. Arnar fagnar þessari hækkun en spyr af hverju Fríhöfnin eigi yfir höfuð að fá afslátt af áfengisgjaldinu. „Eiga lýðheilsurök sem fólk ber fyrir sig um tilvist einokunarverslunarinnar ÁTVR ekki við um Leifsstöð?“

Þá veltir hann því fyrir sér hvort að Isavia lækki ekki bara húsaleiguna á dótturfélag sitt til að spyrna við hækkun áfengisgjaldsins.

„Ef að áfengisgjaldið hækkar á Fríhöfnina, þá einfaldlega lækka þeir bara húsaleiguna á móti. Þeir eru væntanlega þegar búnir að stilla verðinu upp að sársaukamörkum viðskiptavina. Þeir geta líklega ekki hækkað verðið. Það er ekki eins og þeir séu að semja um húsaleiguna við einhvern mann út í bæ. Þetta er sami eigandi.“

„Silent killer“ fyrir veitingageirann

Áfengisgjaldið hér á landi er það hæsta sem finna má í Evrópu. Félag atvinnurekenda hefur bent á að af útsöluverði vodkaflösku tekur ríkið um 92% í sinn hlut, 73,4% af verði kassavíns og 61% af verði bjórflöskunnar.

Í fjárlagafrumvarpinu kom fram að hækka á almenna áfengisgjaldið um 7,7% í samræmi við áætlaða vísitölu neysluverðs í árslok samkvæmt spá Hagstofunnar.

„Ríkisstjórnin ber alltaf fyrir sig að það sé verið að láta áfengisgjaldið halda verðgildi sínu. En er ekki bara hægt að horfa raunsætt á málið og segja „þetta er áfengisgjald er úr öllu meðalhófi“. Eigum við ekki bara aðeins að slaka á og leyfa verðbólgunni að rýra þetta að einhverju marki?“ spyr Arnar.

Hann tekur fram að hann hafi fulla samúð með veitingafólki landsins, sem spili stóran þátt í íslenskri ferðaþjónustu. Hátt áfengisgjald hafi í för með sér að álagning sem veitingastaðir geti lagt á vín og bjór sé of lág til að fólk geti haft eitthvað upp úr rekstrinum.

„Áfengisgjaldið er „silent killer“ eins og talað er um með háa blóðþrýstinginn. Þetta dregur blóðið úr veitingastarfsemi. Það er nær ekkert upp úr þessu að hafa. Það er bara einn og einn aðili sem nær einhverjum afrakstri af þessu.”