Rafmyntasjóður Íslands ehf., sem hlaut nýlega skráningu sem þjónustuveitandi sýndareigna hjá Seðlabankanum, hefur gefið út íslenska rafkrónu (ISKT). Stofnendur Rafmyntasjóðsins segja að rafkrónan geri Íslendingar kleift að fjárfesta í rafmyntum með hraðari og ódýrari máta en áður.
Rafkrónan, sem er byggð á bálkakeðjutækni, er fastgengismynt sem hægt er að skipta við íslensku krónuna á genginu 1:1. Rafkrónan sveiflast ekki í verði heldur verður alltaf jafn mikils virði og ein króna. Hver rafkróna í umferð er tryggð með einni íslenskri krónu í eignasafni Rafmyntasjóðs Íslands.
„Rafkrónan er gjaldgeng í rafmyntakauphöll þar sem hægt er að nálgast allar helstu rafmyntir með mun lægri þóknunum en Íslendingar hafa vanist til þessa,“ segir í tilkynningu félagsins.
Rafmyntasjóður Íslands var stofnaður í árslok 2021. Félagið hefur einblínt á þróun sjálfvirkrar skiptiþjónustu á mintum.is þar sem viðskiptavinir geta umbreytt krónum í rafkrónur og tilbaka. Nýverið hefur félagið lokið við prófanir hjá lokuðum hóp en hyggst nú bjóða almenningi að prófa.
Um stofnendur Rafmyntasjóðsins:
Bjarni Freyr Björnsson er formaður stjórnar félagsins og einn af hluthöfum þess. Bjarni starfar sem forritari hjá Enum ehf. Bjarni hefur haft mikinn áhuga á rafmyntaheiminum frá árinu 2013 þegar hann stundaði námugröft af hinum ýmsu rafmyntum.
Börkur I. Jónsson er framkvæmdastjóri félagsins og einn af hluthöfum þess. Börkur er starfandi lögmaður og einn eiganda að Lögmönnum Kópavogi. Börkur hefur fylgst með heimi rafmynta til fjölda ára og var hugmyndasmiður að íslensku rafkrónunni.
Birkir Rafn Guðjónsson er tæknistjóri Rafmyntasjóðs Íslands og hluthafi. Birkir hefur frá árunum 2015 þróað ýmis verkefni tengd rafmyntum, allt frá Litecoin fork yfir í snjallsamninga á nýrri bálkakeðjum.