Gengi hlutabréfa í Eimskip hefur hækkað um 8,65% frá því opnað var fyrir viðskipti fyrr í morgun. Alls hlaupa viðskipti með bréf félagsins á 270 milljónum króna.
Þá hefur Sjóvá hækkað um 1,8%, Reitir um 1,7% og Íslandsbanki um tæp 1,4%. OMXI10 úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,84% það sem af er degi.
Eimskip sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun eftir lokun markaða í gær. Áætlar félagið að EBITDA á þriðja ársfjórðungi verði á bilinu 48,6-50,1 milljónir evra, eða um 6,8-7 milljarðar króna. Til samanburðar var EBITDA félagsins á sama ársfjórðungi í fyrra um 36,8 milljónir evra, eða um 5,2 milljarðar króna á gengi dagsins.
„Helstu ástæður fyrir EBITDA aukningu eru góð afkoma af erlendri starfsemi félagsins og góð nýting í siglingakerfi félagsins sem skýrist af mjög sterkum Trans-Atlantic flutningum, áframhaldandi góðum innflutningi til Íslands, auk þess sem útflutningur frá Íslandi tók við sér á seinni hluta fjórðungsins eins og væntingar stóðu til,“ segir í tilkynningu Eimskips til Kauphallarinnar.
Þá áætlar Eimskip að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á bilinu 32,8-34,3 milljónir evra, eða um 4,6-4,8 milljarðar króna. Til samanburðar var EBIT-hagnaður Eimskips 23,8 milljónir evra á þriðja fjórðungi 2021, eða 3,3 milljarðar króna á gengi dagsins.