Kauphöllin er eldrauð í fyrstu viðskiptum dagsins. Mikið hefur verið um lækkanir á hlutabréfamarkaði á þessu ári, en OMXI10 vísitalan hefur lækkað um tæp 30% frá áramótum þegar þetta er skrifað. Vísitalan hefur lækkað um 1,1% það sem af er degi.

Íslandsbanki hefur lækkað um 2,3% í fyrstu viðskiptum og stendur gengi bankans nú í 117 krónum. Gengi bankans er nú það sama og söluverðið í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka sem fór fram eftir lokun markaða þann 22. mars síðastliðinn.

Söluverðið, sem nam 117 krónum á hlut, vakti mikla athygli í kjölfar útboðsins en um var að ræða 4,1% frávik frá gengi bankans við lokun Kauphallarinnar sama dag og útboðið stóð yfir.

Mesta veltan er með bréf Arion banka sem hafa lækkað um 1,3% í fyrstu viðskiptum dagsins. Þá hefur Skel lækkað mest allra, um 3,1% í óverulegum viðskiptum. Vís hefur lækkað um 2,55%, Sjóvá um 2,4% og Festi um 1,55%. Einungis eitt félag hefur hækkað í fyrstu viðskiptum, Hagar um 1,4% í 80 milljóna veltu.