Gervigreindarfyrirtækið Perplexity lagði í dag fram tilboð upp á 34,5 milljarða dala í Chrome, vafra Google. The Wall Street Journal greinir frá.
Tilboð Perplexity er sagt umtalsvert hærra en virði fyrirtækisins sjálfs sem er metið á ríflega 18 milljarða dala. Fyrirtækið upplýsti WSJ að nokkrir fjárfestar, þar á meðal stórir vísisjóðir, hefðu samþykkt að fjármagna viðskiptin.
Heildarvirði (e. enterprise value) er metið á stóru bili af greiningaraðilum, eða frá 20 milljörðum dala upp í allt að 50 milljarða dala.
Dómstóll í Bandaríkjunum er með það til skoðunar að þvinga Google til að selja Chrome með það fyrir augum að draga úr sterkri markaðsstöðu netrisans í vefleit. Umræddur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að Google hefði með ólöglegum hætti tryggt sér markaðsráðandi stöðu á markaðnum með vefleitir. Gert er ráð fyrir að dómstóllinn kveði í þessum mánuði á um hvaða ráðstafanir Google þurfi að grípa til.
Í umfjöllun WSJ segir að leiða megi líkur á að tilboð Perplexity sé tilraun til að gefa dómaranum merki um að það sé áhugasamur kaupandi reiðubúinn fjármagn til að taka við vafranum.