Kínversk stjórnvöld munu í fyrsta sinn veita íslenskum ríkisborgurum aðgang að landinu án þess að þurfa vegabréfsáritun. Ísland er meðal 59 annarra ríkja sem fá þessa undanþágu og mega ferðalangar dvelja 30 daga í landinu.

Íslenskir ferðamenn munu þó ekki geta heimsótt Kínamúrinn eða leirhermennina í Xi‘an án vegabréfsáritunar þar sem þessi undanþága á aðeins við um kínversku eyjuna Hainan.

Í tilkynningu frá kínverska sendiráðinu á Íslandi mega íbúar þessara 59 ríkja heimsækja eyjuna sem ferðamenn, til að stunda viðskipti, fara í fjölskylduheimsóknir, í læknismeðferð og til að sækja sýningar og íþróttakeppnir. Það eina sem stendur ekki til boða er að vinna eða fara í nám án vegabréfsáritunar.

Hátt í 90 milljón ferðamenn heimsækja Hainan á hverju ári.
© epa (epa)

Tilkynningin kemur einnig örfáum mánuðum eftir að He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, sagðist vilja sjá beint flug milli Kína og Íslands sem allra fyrst. Sendiherrann sagði á blaðamannafundi í apríl að kínversk flugfélög á borð við Juneyao og Air China væru virkilega að íhuga að bæta Íslandi við sem áfangastað.

Hann hafði einnig fundað með Guðmundi Daða Rúnarssyni, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar hjá Isavia, þar sem bein flug voru meðal annars rædd. Guðmundur hafði sagt að stór hluti ferðamanna sem færi um Keflavíkurflugvöll væru Kínverjar og vildi Isavia styrkja tengsl sín við kínversk flugfélög.

Áfangastaðirnir yrðu þó að öllum líkindum Peking eða Shanghai og gætu því Íslendingar ekki nýtt sér þær borgir í millilendingu. Farþegar þyrftu að sigla eða fljúga beint til Hainan frá þriðja landi eða frá Hong Kong eða Macao.

Hainan er eitt af 22 héruðum í Kína en eyjan er staðsett sunnan við Guangdong-hérað í um eins og hálfs tíma flugferð frá Hong Kong. Hún er þekkt meðal Kínverja fyrir að vera mikil ferðamannaparadís og er nokkurs konar Tenerife Kína.

Haikou, höfuðborg Hainan, er staðsett á norðurhluta eyjunnar og er frekar svipuð mörgum öðrum hitabeltissvæðum í Asíu. Borgin er þekkt fyrir líflega útibari og gömul evrópsk hverfi sem hýsa útimarkaði.

Borgin Sanya er staðsett á suðurhluta eyjunnar en þaðan er horft út á Suður-Kínahaf í átt að Víetnam. Sólarstrendur einkenna borgina en það er þessi borg sem gefur eyjunni Tenerife-orðsporið sitt en hátt í 90 milljón ferðamenn heimsækja Hainan á hverju ári.

Apar eru gjarnan tíðir gestir í almenningssundlaugum Hainan á heitustu dögum.
© epa (epa)

Frá því heimsfaraldur skall á hafa kínversk stjórnvöld reynt að blása lífi aftur í ferðaþjónustu landsins. Árið 2019 heimsóttu rúmlega 100 milljón erlendra ferðamanna Kína en árið 2023 voru þeir ekki nema 35,5 milljónir, eða rúmlega 40% minna en fyrir Covid.

Til að koma til móts við þessa þróun byrjuðu stjórnvöld að bjóða upp á þessar undanþágur í júlí 2023. Til að byrja með þurftu íbúar Singapúr og Brúnei ekki á vegabréfsáritun að halda til að heimsækja Kína en nokkrum mánuðum seinna bættust Frakkar, Þjóðverjar, Ítalir og Hollendingar við þennan lista.

Í mars á þessu ári var undanþágan stækkuð enn frekar og geta nú íbúar frá Sviss, Írlandi, Ungverjalandi, Austurríki, Belgíu og Lúxemborg heimsótt Kína í 15 daga án þess að þurfa vegabréfsáritun. Íslendingar eru þó ekki á þeim lista en með þessari ákvörðun getum við þó stigið á kínverska grundu þar sem sólin skín skærast.