Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar segir útboðsferli með tilboðsfyrirkomulagi eins og það sem beitt var að kvöldi 22. mars síðastliðins við sölu á 22,5% hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka vera flókið, síbreytilegt og óhjákvæmilega matskennt.
Til að átta megi sig á stöðunni og taka ákvarðanir sem hámarka þau fjölmörgu markmið sem lagt var upp með í söluferlinu dugi skammt að horfa einungis til tilboðsbókarinnar og þeirra hráu talna sem hún hefur að geyma hverju sinni.
Hann hafnar alfarið þeirri fullyrðingu í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna að Bankasýsluna og aðra sem að ferlinu komu hafi skort yfirsýn við greiningu á tilboðsbókinni og ákvörðunartöku um leiðbeinandi lokaverð.
„Hann gjörsamlega misskilur allt ferlið,“ segir hann hneykslaður. „Þetta er svo dýnamískt. Tilboðsbókin er að stækka um hálfan milljarð á mínútu. Þeir eyða 5 mánuðum í að gera einhverjar vísindalegar tilraunir á tilboðsbókinni í Excel án nokkurs skilnings á undirliggjandi tilboðsgjöfum, og enda svo á að segja að við hefðum átt að fara með verðið í 122. Þetta er eins og í teiknimyndum í gamla daga þar sem vísindamaður gerði tilraun og það sprakk allt í andlitið á honum og hann endaði svartur í framan og með sviðið hár. Það er Ríkisendurskoðun,“ segir Jón Gunnar.
„Þannig að við höfnum þessum fullyrðingum. Það kemur fram í rökstudda matinu hver eftirspurnin er miðað við stöðuna og greiningu tilboðsbókar af hálfu umsjónaraðila.“
Nánar er rætt við Jón Gunnar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gærmorgun.