Nýr veitingastaður Gló sem opnar í Kaupmannahöfn í júní verður fyrsti staður keðjunnar erlendis. Staðurinn verður í matarkjallara Magasin du Nord verslunarmiðstöðvarinnar, en um er að ræða fyrsta veitingastað keðjunnar utan Íslands, og fimmta veitingastað hennar.
„Magasin leitaði til okkar fyrir um tveimur árum með þá hugmynd að byggja upp og reka veitingastað í nafni Gló í Magasin du Nord,“ er haft eftir Elíasi Guðmundssyni einum eigenda Gló í fréttatilkynningu um málið.
„Síðan þróaðist hugmyndin og nú höfum við gengið frá samningum og uppbyggingin er framundan. Þetta er afar spennandi verkefni og mikil viðurkenning á okkar starfi og þeirri hugmyndafræði sem Solla hefur lagt áherslu á að kynna hér heima og erlendis“
Veitingastaðurinn verður 260 fermetrar að flatarmáli
„Útlit, mörkun og áherslur á staðnum voru unnar með M Worldwide, breskri hönnunarstofu sem sérhæfir sig í hönnun verslana, í samstarfi við Hvíta húsið,“ segir í tilkynningunni.
„M Worldwide hefur unnið með stórum alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Apple, Sainsbury’s, Vodafone og fleirum.
Meðfylgjandi er mynd sem sýnir hvernig útlit of yfirbragð nýrra staða Gló verður.
Veitingastaður Gló í Magasin verður fimmti veitingastaður fyrirtækisins. Gló rekur nú þegar fjóra veitingastaði; Laugavegi, Engjateigi og Fákafeni í Reykjavík og í Hæðarsmára í Kópavogi.
Gló er í eigu Birgis Bieltvedt, Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, Sólveigar Eiríksdóttur og Elíasar Guðmundssonar. Magasin du Nord er dönsk verslunarkeðja sem rekur stórverslanir í stærstu borgum Danmerkur og er dótturfélag bresku keðjunnar Debenhams.
Flaggskip keðjunnar er verslunin við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn en þar fást yfir tvö þúsund vörumerki auk 30 veitingastaða.“