Hagnaður heildsölunnar Globus hf. nam 192 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 130 milljónir árið áður. Í nýbirtum ársreikningi segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um greiðslu arðs vegna síðasta rekstrarárs en félagið greiddi út 120 milljónir á síðasta ári.

Velta félagsins jókst um 7,5% á milli ára og nam 4,3 milljörðum króna. „Þróun í rekstri félagsins var í meginatriðum í samræmi við væntingar,“ segir í skýrslu stjórnar. Ársverk voru átta og laun og launatengd gjöld námu 135,6 milljónum

Frá og með árinu 2006 hefur fyrirtækið einbeitt sér að sölu áfengis og tóbaks. Globus hefur verið með umboð fyrir tóbaksvörur British American Tobacco frá árinu 1962 og jafnframt verið umboðsaðili fjölmargra þekktra áfengisframleiðenda frá árinu 1977.

Eignir Globus voru bókfærðar á 1,2 milljarða króna í lok síðasta árs, þar af var handbært fé um 748 milljónir. Eigið fé nam 706 milljónum.

Globus var stofnað árið 1947 og var um skeið í eigu Heklu. Árið 1956 kaupir Árni Gestsson ásamt fjölskyldu fyrirtækið og hefur síðan verið í eigu fjölskyldunnar. Börkur Árnason er framkvæmdastjóri Globus og fer með fjórðungshlut í félaginu.