Þórarinn Gunnar Birgisson, framkvæmdastjóri Birgisson, telur lykilinn að langlífum rekstri felast í góðri þjónustu sama hvernig ári. „Á Íslandi lifir ekkert fyrirtæki á eins skiptis viðskiptum. Til þess að halda sjó í lengri tíma þarf upplifun viðskiptavinarins að vera góð, þjónustan til fyrirmyndar og þau vandamál sem óumflýjanlega koma upp þarf að tækla af fagmennsku,“ segir Þórarinn Gunnar.

Stöðugur vöxtur frá stofnun

Birgisson var stofnað árið 2010 í kjölfar fjármálahrunsins og hefur verið í stöðugum vexti síðan. Að sögn Þórarins Gunnars var aðaláskorunin í heimsfaraldrinum að anna eftirspurninni, sem rauk upp úr öllu valdi. Aftur á móti sé það óumflýjanlegt núna að hægja muni töluvert á, tímabundið hið minnsta, sem endurspegli  stöðuna í heimshagkerfinu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

„Við njótum góðs af því að hafa ekki fjárfest mikið og erum því í sterkri stöðu fjárhagslega. Ef ég horfi raunsætt á stöðuna þá verður auðvitað bara barist harðar um bitana núna.“

Þórarinn Gunnar segist þakklátur fyrir að hafa dregið til baka þær ráðstafanir sem hann lagði upp með í byrjun faraldursins. Eftirspurnin eftir vörunum þeirra hafi margfaldast og reksturinn gengið einstaklega vel, en margt hafi spilað inn í það hvernig málin þróuðust. Til að mynda hafi vaxtastig verið lágt og fólk hafi átt auðveldara með að endurfjármagna.

„Á tímabili vorum við að leggja meira en tvöfalda vinnu á starfsfólkið okkar sem stóð sig frábærlega. Við búum að því að vera með litla starfsmannaveltu og mikla reynslu. Að auki erum við með fáa en góða birgja sem við eigum farsæl og góð viðskiptasambönd við. Það kom sér vel þegar fór að hökta í aðfangakeðjum, sem við höfum í raun ekki fundið mikið fyrir.“

Óvissan allsráðandi

Afleiðingar stríðsins í Úkraínu komu Þórarni Gunnari að einhverju leyti á óvart. „Ég gerði mér grein fyrir því að þetta væru mjög mikilvæg landsvæði þegar kæmi að ákveðnum hrávörum, en ég hafði ekki áttað mig á stærðargráðunni og í raun hversu stór hluti af t.d. eikartrjám og leir til flísaframleiðslu í Evrópu kæmi frá þessum landsvæðum. Ekki nóg með að hrávaran sé af skornum skammti í ákveðnum vöruflokkum heldur eru framleiðendur einnig að berjast við síhækkandi gas- og raforkuverð sem gerir mörgum erfitt fyrir. Verð fara því hækkandi þrátt fyrir mikinn samdrátt í pantanabókum birgja.“

Þórarinn Gunnar segir óvissu einkenna ástandið í dag. „Íslensk heimili munu finna fyrir verðbólgunni á komandi mánuðum, hvort sem þau eru með verðtryggð eða óverðtryggð lán. Í slíku árferði eru gólfefni og annað slíkt kannski ekki forgangsmál. Á móti kemur að enn er mikill skortur á íbúðum og loforð stjórnvalda um nýbyggingar á næstu árum þarf að gera að forgangsmálum.“

Sorpið orðið að afurð

Birgjar Birgisson eru langflestir með mjög skýra umhverfisstefnu og segir Þórarinn Gunnar margt spennandi vera að gerast í þeim efnum. Sem dæmi nefnir hann sorphirðukostnað fyrirtækisins sem hafi þangað til nýlega þurft að greiða háar upphæðir fyrir að urða því sorpi sem hafi fallið til í starfseminni. „Áður fyrr vorum við með gám þar sem öllu sorpi var safnað saman og sorphirðukostnaðurinn hljóp á milljónum.“

Hann segir Birgisson hafa keypt plastpressu fyrir ári sem hafi verið fljót að borga sig. Þá sé stefnt að því að kaupa pappapressu næst. Áður hafi fyrirtækið þurft að losa sig við pappa og plast vikulega en horfi nú til að geta selt pressaðan pappa og plast. „Þetta er orðin afurð. Í dag er ég farinn að horfa til þess hvernig ég get hámarkað hagnaðinn, í stað þess að hugsa um hvernig ég geti komist hjá kostnaði. Svo eru framleiðendurnir líka farnir að horfa í það í ríkari mæli hvort varan sé endurvinnanleg eða ekki.“

Þórarinn Gunnar segir verkefni þar sem umhverfisstefna er einn af lykilþáttunum sífellt vera að aukast. Svansvottun og fleiri umhverfisvottanir vara séu því nánast orðin krafa í nútíma byggingaframkvæmdum. „Það er einmitt það sem okkar birgjar leggja ríka áherslu á og nánast allar okkar vörur eru því umhverfisvottaðar.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.