Þetta var mjög gott ár á öllum vígstöðvum og við náðum okkar helstu fjárhagsmarkmiðum sem er auðvitað mjög ánægjulegt,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í viðtali í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri sem kom út í dag.
Arion banki hagnaðist um 28,6 milljarða króna á síðasta ári og nam arðsemi eigin fjár bankans 14,7%. Þá námu heildareignir félagsins 1.314 milljörðum króna. Þar af námu útlán til viðskiptavina 936 milljörðum króna og jukust um tæp 14% milli ára. Heildar eigið fé Arion banka nam 195 milljörðum í árslok og var eiginfjárhlutfallið 23,8%.
Benedikt segir marga samverkandi þætti hafa stuðlað að góðum árangri félagsins á árinu. Mjög góður gangur hafi verið í hagkerfinu og umhverfið almennt hagfellt fyrir banka. Þá hafi bankinn ráðist í breytingar á skipulagi fyrir um þremur árum sem hafi skilað sér að fullu í fyrra, en um 750 manns starfa hjá Arion-samstæðunni.
„Á síðasta ári störfuðu allar okkar lykilviðskiptaeiningar í mjög góðu umhverfi. Það voru mikil umsvif á verðbréfamarkaði, tekjur jukust talsvert í eignastýringu vegna hækkana á eignaverði og þjóðhagssparnaður var hár. Þetta var jafnframt fínt ár á tryggingamarkaði og er Vörður enn að bæta við sig markaðshlutdeild. Þá var lítið um vanskil, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum.“
Hann bætir við að mikil umsvif á fasteignamarkaði á árinu hafi skilað sér í miklum vexti íbúðalána. Auk þess hafi verið mörg spennandi verkefni á fyrirtækjaog fjárfestingabankahliðinni sem snéru að fjárfestingum, samrunum, yfirtökum og skráningum. „Þessi góði árangur náðist fyrst og fremst vegna þess að við erum með mjög góðan hóp starfsfólks sem er samstilltur og markmiðin voru skýr inn í árið.“
Ísland sé ekki eyland
Benedikt segir ljóst að efnahagshorfurnar séu verri nú en fyrir ári síðan. Útlit sé fyrir samdrátt í mörgum af okkar stærstu viðskiptalöndum sem gæti teygt sig til Bandaríkjanna á fyrstu tveimur ársfjórðungum næsta árs. Þó að Ísland sé betur statt en flest önnur ríki í Evrópu muni samdráttur í þessum ríkjum hafa áhrif á efnahaginn hérlendis þar sem Ísland sé ekki eyland í þessum efnum.
„Allur órói á erlendum mörkuðum hefur áhrif á skuldabréfamarkaði sem við nýtum til að sækja lánsfé. Það er það sem maður hefur mestar áhyggjur af, að markaðir verði óvirkir eða lélegir yfir lengra tímabil. Það myndi gera það að verkum að íslensku bankarnir munu eiga erfiðara með að stækka og lána í erlendri mynt. Slíkt ástand gæti bitnað á útflutningsgeiranum sem þarf að sækja sér lánsfé.“
Benedikt segir efnahagssamdrátt í stærstu viðskiptalöndunum geta haft mikil áhrif á viðskiptakjör í íslenska hagkerfinu. Þá gæti fiskverð lækkað og verðmæti áls og annarra afurða orkufreks iðnaðar sömuleiðis. Samdráttur erlendis gæti einnig fækkað ferðamönnum hérlendis.
„Þekkingariðnaðurinn er líka viðkvæmur gagnvart mögulegum samdrætti hjá okkar helstu viðskiptalöndum. Tekjuvöxtur greinarinnar er mjög miðaður á útflutning og er ekki háður innlendri eftirspurn þar sem þetta eru alþjóðlegar vörur sem verið er að selja. Til dæmis getur maður ímyndað sér að samdráttur geti haft áhrif á útflutning á lækningavörum þar sem stjórnvöld erlendis gætu þurft að bregðast við minnkandi landsframleiðslu með niðurskurði í heilbrigðismálum.“
Metár í íbúðalánum
Árið 2021 var metár í íbúðalánum hjá félaginu. Bankinn lánaði alls 211 milljarða króna í íbúðalán og óx íbúðalánasafnið um 85 milljarða króna. Benedikt segir að hátt í helmingur af íbúðalánasafni bankans á síðasta ári hafi verið annaðhvort endurfjármögnun íbúðalána eða ný lán. Spurður að því hvort hann hafi áhyggjur af hækkandi greiðslubyrði þeirra óverðtryggðu lána sem tekin voru á tímum óvenju lágra vaxta segir Benedikt að þróað vöruframboð lána á Íslandi ætti að geta svarað þeim áskorunum.
„Óverðtryggðu lánin voru á mjög góðum kjörum eins og sást þegar vextir lækkuðu mikið. En við eigum þetta verðtryggða form þar sem fólk getur komist í lægri greiðslubyrði, en á móti kemur minni eignamyndun í fasteigninni, að minnsta kosti tímabundið.“
Vextir hafa hækkað hratt á undanförnum misserum frá því að meginvextir Seðlabankans náðu lágmarki í 0,75 prósentum í miðjum faraldri. Nú eru stýrivextirnir orðnir 5,75% og segir Benedikt hærri vexti hafa margvísleg áhrif á bankarekstur.
„Það er þekkt að í hærra vaxtastigi aukast vaxtatekjurnar. Á móti kemur að hærri vextir geta leitt til meiri útlánatapa. Auk þess er spurning hvaða áhrif hærra vaxtastig hefur á fjárfestingar og umsvif í hagkerfinu. Það má segja að þær vaxtahækkanir sem ráðist hefur verið í að undanförnu hafi jákvæð skammtímaáhrif en til langs tíma eru áhrifin ekki eins jákvæð. En auðvitað er það hlutverk Seðlabankans að aðlaga stýrivexti að aðstæðum hverju sinni og lækka þá ef aðstæður breytast.“
Benedikt segir helstu áskoranir bankans framundan vera óvissu á alþjóðavísu sem og vaxtahorfur og verðbólgan sem við og fleiri lönd glímum við um þessar mundir.
Viðtalið má finna í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri sem fylgdi Viðskiptablaðinu í dag og er opið öllum.