Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, segir að öllu óbreyttu muni félagið framleiða gull fyrir árslok samkvæmt árshlutauppgjöri fyrri árshelmings.
Heildargreiðslugeta félagsins stendur í 62,2 milljónum Bandaríkjadala eða sem nemur um 8,5 milljörðum króna á gengi dagsins. Mun það vera lækkun úr 96,3 milljónum bandaríkjadala í lok mars.
Um er að ræða reiðufé og ónýttar lánalínur en félagið opnaði þrjár nýjar lánalínur fyrir 35 milljónir dala hjá Landsbankanum í júlímánuði.
Veltufé frá rekstri í gullstarfseminni, að undanskilinni ábyrgð á breytilegum skuldabréfum, nam 50,5 milljónum Bandaríkjadala, þar af fóru 19,6 milljónir Bandaríkjadalir í fyrir fram greiddar verktakagreiðslur í tengslum við Nalunaq-námuna.
„Uppbygging í Nalunaq gengur vel og erum við á góðri leið með að ná markmiðum okkar um framleiðslu á gulli síðar á þessu ári. Við höfum lokið við uppsetningu á aðalmannvirki vinnslusvæðisins og næsta skref er að færa tæki og aðra nauðsynlega hluti inn í bygginguna til uppsetningar. Annar stór áfangi á ársfjórðungnum var að fá samþykki grænlenskra stjórnvalda á umhverfis- og samfélagsmati fyrir Nalunaq-námuna. Við erum staðráðin í að viðhalda hæstu stöðlum umhverfis- og samfélagslegrar ábyrgðar þegar kemur að því að gangsetja framleiðslu í Nalunaq,“ segir Eldur í uppgjörinu.
Samkvæmt uppgjörinu vinna 96 manns við Nalunaq-námuna á hverjum degi en framkvæmdum á svæðinu er að mestu lokið.
Sem fyrr segir býst félagið við því að ná að framleiða gull á fjórða ársfjórðungi þessa árs ásamt því að ljúka aðstöðu fyrir um 120 manns á svæðinu.
„Rannsóknir á frekari auðlindum í Nalunaq og á öðrum álitlegum rannsóknarleyfum félagsins ganga einnig vel. Boranir eru þegar hafnar í Target Block í Nalunaq sem og við nýlega reistar rannsóknarbúðir í Stendalen.
Þá gengum við einnig frá samkomulagi í júlí um helstu skilmála að nýrri lánsfjármögnun við Landsbankann, sem mun auka aðgengi okkar að lánsfé og lengja í núverandi óádregnum lánalínum félagsins. Þessi fjármögnun mun einfalda lánaskipan félagsins í einn samning á hagstæðari kjörum ásamt því að styrkja lausafjárstöðu félagsins,“ segir Eldur.