Tryggingarekstur hér á landi er ekki eins arðsamur og á Norðurlöndunum og tjónahlutfall tryggingafélaganna hérlendis er hærra. Tryggingafélög á Íslandi eru með hæsta samsetta hlutfall vátrygginga í Evrópu, en hlutfall yfir 100% þýðir að iðgjöld séu lægri en samtala tjónagreiðslna og rekstrarkostnaðar. Meðaltalið á árunum 2017-2022 fyrir samsett hlutfall vátrygginga án líftrygginga var 91,6% í Evrópu og á bilinu 85-96% á öðrum Norðurlöndum. Hérlendis var það 100,7%. Hátt hlutfall hérlendis skýrist einkum af mjög háu tjónahlutfalli. Tjónahlutfallið var 80% hérlendis á tímabilinu frá 2017-2022 en meðaltalið í Evrópu var 59%. Það þýðir að 80% af greiddum iðgjöldum íslensku tryggingafélaganna eru nýtt til þess að greiða út bætur.

Þetta kemur fram í samrunaskrá vegna kaupa Landsbankans á öllu hlutafé í tryggingafélaginu TM þar sem vísað er í meistararitgerð Hörpu Hjartardóttur Er dýrt að tryggja á Íslandi? – Tryggingar á Íslandi og í norrænu samhengi. Einnig er vitnað í gögn frá Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni (EIOPA).

Með öðrum orðum má því segja að átta af hverjum tíu krónum sem viðskiptavinir greiða tryggingafélögum í iðgjöld skaðatrygginga fari í að greiða út bætur til viðskiptavina. Með skaðatryggingarstarfsemi er átt við alla tryggingarstarfsemi utan líftryggingastarfsemi. Kostnaður við að standa undir rekstri tryggingafélaganna samsvaraði því rúmlega tveimur krónum af hverjum tíu sem fengust í iðgjöld. Skaðatryggingahlutinn í heild var því í mínus.

Ísland er eina landið í Evrópu þar sem staðan er þessi. Þar af leiðandi þarf fjárfestingahluti íslensku tryggingafélaganna að standa undir allri afkomunni en eins og gefur að skilja er sú afkoma mjög sveiflukennd.

Umræðan um íslenska vátryggingamarkaðinn hefur oft verið á þann veg að um fákeppnismarkað sé að ræða en fyrrgreindar upplýsingar benda þó til annars. Í fyrrgreindri meistararitgerð segir að ekki sé hægt að staðhæfa að tryggingafélögin séu að okra á neytendum. Hins vegar bendi ýmislegt til þess að fara þurfi í endurskoðun á regluverki varðandi skaðabætur líkamstjóna vegna umferðarslysa svo hægt sé að lækka iðgjöld.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.