Vegna gífurlegra hækkana á orkuverði leita Bretar nú ódýrari leiða til að sinna eldamennsku. Meðal ráða sem einhverjir þeirra hafa gripið til að lækka orkureikninginn er að hætta að nota bakaraofn við eldamennsku. Þetta kemur fram í frétt Reuters, sem byggir á gögnum markaðsrannsóknarfyrirtækisins Kantar.
Sala raftækja á borð við hægeldunarpotta (e. slow cooker), „Airfryer“ potta og samlokugrilla, sem alla jafna eyða minni orku en bakaraofnar, jókst um 53% á fjögurra vikna tímabili sem lauk 4. september sl. í samanburði við sama tímabil árið áður.
Samkvæmt gögnum Kantar jókst sala á sængum og rafmagnsteppum að sama skapi um 8%. Þá jókst sala á kertum um 9% og þykir það til marks um að Bretar búi sig undir rafmagnsleysi í vetur.