Dmitrjis Stals, stofnandi og forstjóri Legendary Hotels and Resorts, hefur ákveðið að leggja af 15% þjónustugjaldið sem sett var á alla reikninga veitingastaðarins Nordic Restaurant frá og með deginum í dag.
Í tilkynningu segir að veitingastaðurinn muni einnig bjóða viðskiptavinum 20-28% afslátt á öllum mat og drykk.
Viðskiptablaðið greindi frá því á föstudaginn að Nordic Restaurant hafði ákveðið að leggja 15% þjónustugjald á alla reikninga veitingastaðarins fyrir rúmum mánuði síðan.
Eigandi staðarins sagði þetta vera tilraun og að íslenskur lögfræðingur hafi fullvissað hann um að ákvörðunin væri í samræmi við lög.
Hann sagði hins vegar að viðskiptavinum væri ekki skylt að greiða gjaldið og ef þeir vildu ekki borga þá þyrftu þeir einfaldlega að biðja um að gjaldið yrði fjarlægt.