Söluhagnaður I.Á. hönnunar ehf., vegna sölu á sjávartæknifyrirtækinu Skaganum 3X, til þýska félagsins Baader nam tæplega 2,5 milljörðum króna samkvæmt ársreikningi þess fyrrnefnda.

I.Á. hönnun greiddi 800 milljónir króna í arð í fyrra, en Ingólfur Árnason stofnandi Skagans 3X er eigandi félagsins til helminga á móti eiginkonu sinni, Guðrúnu Agnesi Sveinsdóttur. Ingólfur starfaði sem forstjóri Skagans 3X þar til í desember í fyrra. Fasteignir Skagans 3X voru utan við kaupin og leigir fyrirtækið þær af félagi í eigu Ingólfs og fjölskyldu.

Hátt í þriggja milljarða tap

Rekstur Skagans 3X hefur verið þungur undanfarin ár. Fyrirtækið tapaði 2,7 milljörðum króna í fyrra og 213 milljónum árið 2020. Í sumar var 16 manns sagt upp hjá félaginu.

Meðal ástæða sem nefndar voru fyrir miklu tapi Skagans 3X á síðasta ári voru endurskipulagning og endurmat skuldbindinga og krafna frá fyrri tíð en auk þess hafa heimsfaraldurinn og stríðið í Úkraínu vegið þungt en fyrirtækið hefur á síðustu árum átt í talsverðum viðskiptum í Rússlandi.

Velta Skagans 3X nam 3,6 milljörðum árið 2020 sem var helmingun frá árinu 2019 þegar tekjurnar námu sjö milljörðum króna en ársverk árið 2020 voru 206.

Tilkynnt var um kaup Baader á meirihluta í Skaganum 3X í október árið 2020. Baader keypti upphaflega 60% hlut í fyrirtækinu af I.Á. hönnun. Í desember árið 2021 var svo sagt frá því að Ingólfur væri hættur sem forstjóri Skagans 3X. Í febrúar á þessu ári eignaðist Baader svo hin 40% og félagið þar með að fullu. Þrátt fyrir að síðari hlutinn hafi skipt um hendur á þessu ári var hann að fullu færður til bókar í ársreikningi síðasta árs.

Í ársreikningi I.Á hönnunar kemur fram að hluti kaupverðsins hafi verið greiddur með handbæru fé, en eftirstöðvar komi til greiðslu næsta áratuginn. Skipting fjárhæðarinnar milli þessara greiðslumáta er ekki tilgreind.

Ársreikningur Skagans 3X fyrir síðasta ár hefur ekki verið birtur en í upphafi árs 2021 nam eigið fé félagsins um 1,3 milljörðum króna sem samsvarar um helmingi af 2,7 milljarða tapi ársins 2021. Viðskiptablaðið sagði frá því í fyrra að hlutafé Skagans 3X hafi verið aukið um 1,2 milljarða króna á fyrri hluta ársins 2021, í kjölfar kaupa Baader á félaginu.