Fjarskiptafélagið Nova hagnaðist um 149 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 108 milljónir á sama tímabili í fyrra. Það samsvarar um 38% vexti milli ára. Félagið birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Heildartekjur Nova jukust um 6,2% milli ára og námu 3.428 milljónum króna á fjórðungnum. Þar af voru þjónustutekjur 2.718 milljónir króna og jukust um 7,9% frá sama tímabili í fyrra.

Rekstrarhagnaður fjarskiptafélagsins fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1.054 milljónum og jókst um 9,7% milli ára. EBITDA hlutfallið á fjórðungnum var 30,7% samanborið við 29,8% á fyrra ári.

Úr fjárfestakynningu Nova.

„Það er virkilega gott að sjá áfram sterkan rekstur byggðan á góðum grunni, með vöxt í öllum lykiltölum á öðrum ársfjórðungi. Þetta skiptir auðvitað máli á tíma þar sem við höfum sett stefnuna á enn frekari vöxt og ný tækifæri til að auka tekjur. Hver einasti áfangi skiptir máli og boðar þetta gott fyrir framtíðina. Það sem gleður mig mest er að finna þann mikla meðbyr og metnað sem knýr Nova áfram,“ segir Margrét Tryggvadóttir, fráfarandi forstjóri Nova.

Tilkynnt var í maí um að Margrét hefði óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri Nova og mun hún gegna starfinu áfram til 1. desember. Nova tilkynnti í byrjun júlí um ráðningu Sylvíu Krist­ínar Ólafs­dóttur, sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Icelandair, sem forstjóra.