Hagfræðideild Landsbankans spáir 6,5% hagvexti á þessu ári, en síðast þegar bankinn gaf út hagspá í maí gerði hann ráð fyrir 5,1% hagvexti á árinu. Þetta er jafnframt mun meiri hagvöxtur en í flestum nágrannalöndum okkar, að því er kemur fram í þjóðhagsspá Landsbankans.
Bankinn spáir því að hagvöxtur á árinu verði drifinn af 22,4% vexti útflutnings, 6,7% vexti einkaneyslu og 6,6% aukningu heildarfjármunamyndunar. Á næsta ári muni hagvöxtur hægja á sér og mælast 2,1%. Hagvöxtur verði síðan 3,0% árið 2024 og 1,9% árið 2025.
Spá um verulega aukinn hagvöxt á árinu skýrist einna helst af því að bankinn spáir því að fleiri erlendir ferðamenn komi til Íslands á árinu en áður var gert ráð fyrir. Þó sé margt sem bendi til þess að hagvöxtur verði fremur lágur á árunum á eftir, og eru verðbólga, vaxtahækkanir og kaupmáttarrýrnun þar stórir áhrifaþættir.
Bankinn spáir því að kaupmáttur dragist saman um 0,4% milli áranna 2021 og 2022 og aukist aðeins um 0,5% á næsta ári. Þetta yrði í fyrst sinn síðan árið 2010 sem kaupmáttur dregst saman milli ára og er útlit fyrir að vöxtur kaupmáttar á næstu árum verði undir meðalvexti frá aldamótum.
Hægari kaupmáttarþróun má fyrst og fremst rekja til mikillar verðbólgu, en hún mældist 9,3% í september. Íbúðamarkaður er farinn að hægja á sér en þrátt fyrir það mælist verðbólga án húsnæðis um 7%. Verð á hrávöru er enn hátt og gengi krónunnar ekki styrkst jafn mikið og gert var ráð fyrir.
Þá telur bankinn að verðbólgumarkmiðið náist ekki á næstu árum, en að verðbólgan verði komin niður í 3,5% árið 2025. Í hagspánni er gert ráð fyrir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið og að vaxtalækkunarferli muni ekki hefjast fyrr en á þriðja ársfjórðungi næsta árs. Þá spáir bankinn því að stýrivextir nái lágmarki í 3,75% í lok spátímans, í lok árs 2025.
Þá segir í hagspánni að versnandi lífskjör í mörgum viðskiptalöndum okkar, meiri verðbólga en sést hefur í áratugi, misjöfn og misvísandi viðbrögð stjórnvalda hinna ýmsu ríkja við efnahagsástandinu og innrás Rússa í Úkraínu séu meðal þeirra þátta sem valdi mikilli óvissu um þróun alþjóðaviðskipta á heimvísu. Óvissan gæti orðið þess valdandi að erlendum ferðamönnum fjölgi hlutfallslega minna á næsta ári en áður var talið.
Launaþróun er ákveðin óvissa í hagspánni, en spenna ríkir á vinnumarkaði og er talsvert launaskrið. Kjarasamningar á almenna markaðnum renna út í lok október og á þeim opinbera í lok mars á næsta ári. Bankinn spáir því að laun hækki um 7,6% á þessu ári og svo 7,1% á næsta ári, sem yrði nokkuð í takt við breytingarnar á síðustu árum.