Bílaframleiðendurnir Toyota, Honda og Mazda hafa stöðvað sendingar á nokkrum bílategundum í Japan. Samkvæmt fréttamiðlinum WSJ fylgdu framleiðendur ekki að fullu vottunarreglum stjórnvalda.

Toyota sagði í dag að ófullnægjandi gögn hefðu verið notuð til að votta Corolla Fielder, Corolla Axio og Yaris Cross.

Japanska samgönguráðuneytið sendi þarlendum bílaframleiðendum í janúar fyrirmæli um að kanna vottunarferli þeirra eftir að hafa uppgötvað vanrækslu í framleiðsluferli hjá Daihatsu Motor-bílum fyrirtækisins.

Toyota gerði sjálft athugasemdir við nokkur árekstrar- og öryggispróf fyrir fjórar bílagerðir sem fyrirtækið hefur hætt að framleiða. Það væri þó ekkert sem brjóti í bága við reglur og engin þörf væri á að hætta að nota bílana sjálfa.

Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af þeim Toyota-bílum sem eru seldir hér á landi eða annars staðar í Evrópu.

„Yaris Cross-bílarnir sem eru seldir hér á landi eru framleiddir í Frakklandi, ekki Japan.“

Það voru ekki aðeins fólksbílaframleiðendurnir sem þurftu að stöðva sendingar en Yamaha Motor þurfti að taka mótorhjól af framleiðslugólfinu eftir að fyrirtækið uppgötvaði að starfsmenn höfðu breytt vélarafköstum mótorhjólsins rétt fyrir hlóðdeyfipróf.