Verðbólguþrýstingur á framleiðslustigi í Bandaríkjunum jókst skarpt í júlí, þegar framleiðsluverðsvísitalan (PPI) hækkaði um 3,3% frá sama mánuði í fyrra.
Þetta er mesta árshækkun vísitölunnar frá febrúarmánuði og skýrasta merkið hingað til um að nýir tollar stjórnvalda undir forystu Donalds Trump séu farnir að hafa áhrif á verðlag, samkvæmt Financial Times.
Hækkunin var mun meiri en búist var við. Hagfræðingar töldu að PPI myndi aukast um 2,5%.
Sé litið til mánaðarbreytinga jókst PPI um 0,9% frá júní, sem er hraðasta hækkun vísitölunnar á einum mánuði í rúm þrjú ár.
Hagfræðingar telja að hærri innflutningskostnaður vegna nýrra tolla hafi ýtt undir hækkunina, bæði á hráefnum og fullunnum vörum.
Fyrir birtingu nýjustu talna höfðu fjárfestar verið sannfærðir um að Seðlabanki Bandaríkjanna myndi lækka stýrivexti í september, jafnvel um hálft prósentustig, í kjölfar jákvæðra neysluverðsmælinga á þriðjudag.
Eftir PPI-tölurnar dró þó lítillega úr væntingum um slíka stóra lækkun samkvæmt gögnum CME Group.
Eftir birtingu PPI-tölunnar styrktust tveggja ára ríkisskuldabréf og bandaríski dollarinn, en bæði bréfin og dalurinn eru næm fyrir breytingar í vaxtahorfum.
Á skuldabréfamarkaði hækkuðu 10 ára vextir í 4,27%, á meðan dollarinn veiktist lítillega gagnvart japönsku jeninu eftir að fjármálaráðherrann Scott Bessent gagnrýndi japanska seðlabankann fyrir að bregðast of hægt við verðbólgu.