Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Haga á matarpakkafyrirtækinu Eldum rétt án íhlutunar. Tilkynnt var um kaupin í byrjun mars.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að eftirlitið hafi lagst í ítarlegar rannsóknir í tengslum við kaupin vegna stöðu Haga á dagvörumarkaði og umfangs Eldum rétt í sölu á matarpökkum.

Samkeppniseftirlitið taldi upphaflega að samruninn raskaði samkeppni og birti samrunaaðilum frummat sit þess efnis sem og andmælaskjal. Eftir svör frá Eldum rétt og Högum sem og athugasemdum og sjónarmiðum markaðsaðila sem og viðbótargögnum komst eftirlitið hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til íhlutunar af hálfu eftirlitsins. Aðgangshindranir inn á markaðinn með matarpakka væru m.a. minni en eftirlitið hefði gert ráð fyrir í upphafi og þá væri markaðurinn í mikilli þróun.

Engu síður benti Samkeppniseftirlitið á að áfram væri litið svo á að Hagar væru í markaðsráðandi stöðu á matvörumarkaði og þyrftu að hegða rekstri félagsins í samræmi við það.

Í rannsókn eftirlitsins lét það meðal annars vinna könnun fyrir viðskiptavini matarpakkafyrirtækja sem og helstu hagsmunaaðila.

Hagar reka meðal annars Bónus og Hagkaup, Olís auk heildsölur Banana, Aðfanga og fjölda fataverslana.

Velta Eldum rétt á síðasta ári nam ríflega milljarði króna á síðasta ári. Krónan stærsti samkeppnisaðili Bónuss, velti 46 milljörðum í fyrra, Samkaup veltu um 40 milljörðum króna og þá velti Costco 22 milljörðum á síðasta rekstrarári.