Samstæða Heimilistækja, sem sérhæfir sig í innflutningi og sölu raftækja, skilaði 480 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við 377 milljóna hagnað árið 2020.
Velta félagsins jókst um 1,3% á milli ára og nam 7,3 milljörðum. Innan samstæðunnar eru fimm dótturfélög, þar á meðal Tölvulistinn, Byggt og Búið, og Kúnígúnd. Meðalfjöldi stöðugilda voru 102 í fyrra og laun og annar starfsmannakostnaður nam 993 milljónum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) um 7,7% og nam 611 milljónum.
Auk verslunar á Suðurlandsbraut 26 rekur Heimilistæki fjórar verslanir á landsbyggðinni á Selfossi, Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjanesbæ. Heimilistæki var næst efst í Íslensku ánægjuvoginni árið 2021, aðeins á eftir eldsneytissölu Costco.
Heimilistæki náðu samkomulagi um kaup á heildversluninni Ásbirni Ólafssyni ehf. fyrr í ár sem bíða nú samþykkis frá Samkeppniseftirlitinu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hljóðar kaupverðið hátt í tvo milljarða króna.
Eignir Heimilistækja voru bókfærðar á 2,8 milljarða króna í lok síðasta árs og eigið fé var um 1,5 milljarðar. Heimilistæki er í eigu Hreins Hlíðars Erlendssonar og sona hans Ólafs Más, Birkis Arnar og Hlíðars Þórs en sá síðastnefndi er framkvæmdastjóri félagsins.