Óli Björn Kárason, þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir nýsköpun ekki einvörðungu felast í því að búa til nýjar tæknilausnir heldur einnig í því að skapa nýjar aðferðir við að veita þjónustu og koma til móts við þær þarfir sem eru til staðar. „Opinberir aðilar hafa aldrei rutt brautina með þeim hætti sem einkaaðilar gera. Það er vegna þess að einstaklingar skynja hvaða þörf er á markaðinum, á meðan ríkið hefur aldrei nein tæki eða tól til að skynja það,“ segir Óli Björn.
Fyrirséð sé að útgjöld til heilbrigðismála muni aukast á komandi áratugum. Óli Björn er þeirrar skoðunar að til þess að halda kostnaðaraukningunni innan skynsamlegra marka þurfi annars vegar að auka kröfur til þess hvernig farið sé með fé og að innbyggður hvati sé í kerfinu til að veita góða þjónustu með eins ódýrum hætti og hægt er. Hins vegar þurfi að tryggja að vindar nýrrar hugsunar blási inn í kerfið svo fólki með nýjar lausnir sé gert kleift að þróa þær og hrinda í framkvæmd. „Samkeppni um þjónustuna er grundvallar forsenda þess að þetta sé hægt.“
Hann telur vera skort á pólitískum vilja til að gera samning á milli ríkisins og einkaaðila í öldrunarþjónustu sem veiti öldruðum alhliða þjónustu heima fyrir. Hann telur þetta vera gott dæmi um að kerfið virki ekki. „Hugmyndafræðin að baki Sjúkratryggingum var sú að gerðir yrðu samningar við þá sem veita heilbrigðisþjónustu innan samfélagsins óháð rekstrarformi. Aftur á móti hefur þessi hugmyndafræði aldrei komist að fullu til framkvæmda.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 22. september 2022.